Bandaríski leikarinn Alex Karras er látinn vegna nýrnabilunar. Karr er einna best þekktur fyrir leik sinn í hlutverki Mongo í grín-kúrekamyndinni Blazing Saddles eftir Mel Brooks, en Karras var einnig vel þekktur fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Webster, auk þess sem hann var ruðningsstjarna með Detroit Lions í Bandaríkjunum áður en hann sneri sér að kvikmyndaleik.
Karras var 77 ára þegar hann lést, en hann hafði átt við andlega erfiðleika að stríða um tíma.
Í sjónvarpsþáttunum Webster, sem Karras lék í á árunum 1983 – 1989, lék Karras ásamt eiginkonu sinni Susan Clark, foreldra barnastjörnunnar Emmanuel Lewis. Þar áður, eins og fyrr sagði, gerði Alex Karras garðinn frægan sem durturinn Mongo sem sló hesta kalda, í mynd Mel Brooks frá árinu 1974, Blazing Saddles.
Þá lék Karras í unglingamyndinni Porky´s, þar sem Clark var ein af aðalleikkonum, hann lék einnig í Victor Victoria ásamt Óskarsverðlaunaleikkonunni Julie Andrews, og í spennutryllinum vinsæla Against All Odds.
Mongo í frægu atriði í Blazing Saddles þar sem hann steinrotar hest.