Leikstjórinn Alex Cox er líklega frægastur fyrir költmyndirnar Repo Man (1984) og Sid & Nancy (1986), sem báðar komu út á níunda áratugnum – á svokölluðum „stúdíótíma“ leikstjórans – en hann hefur verið virkur í sinni kvikmyndagerð allar götur síðan, þótt minna hafi farið fyrir honum. Ástæða þess að hann hefur ekki verið áberandi í meginstraumnum er vegna hins epíska sýru-vestra Walker (1987), sem fór illa fyrir fjárhagslega á sínum tíma, þrátt fyrir að hafa orðið költ-mynd síðar meir, en allt peningaklúðrið í kringum þá merkilegu mynd gerði að verkum að Cox hefur ekki átt greiða leið að stúdíópeningum eftir það. Engu að síður, eins og hann bendir sjálfur á, hefur hann ávallt klárað öll sín verkefni og komið þeim í dreifingu, hvort sem var í kvikmyndahús, sjónvarp eða á DVD.
Þessa dagana stendur hann fyrir fjáröflun í gegnum Kickstarter fyrir nýrri vísindaskáldsögumynd, sem mun byggja á bókinni Bill, the Galactic Hero, eftir Harry Harrison. Bókin kom út árið 1965 og er satíra um aðrar vísindaskáldsögur, og þá sérstaklega hina neó-fasísku Starship Troopers eftir Robert Heinlein, sem hafði komið út hálfum áratug áður. Sú bók var einmitt kvikmynduð að miklu leyti sem satíra af Paul Verhoeven árið 1997, mörgum Heinlein-púritönum til ama.
Bill the Galactic Hero hljómar eins og kjörið efni fyrir Cox, enda er Repo Man ein allra besta blanda af súru gríni og vísindaskáldskap sem fest hefur verið á filmu. Þar að auki má nefna að Cox segist hafa unnið handritið í samstarfi við sjálfan Harrison þar til að höfundurinn lést í fyrra, sem gefur til kynna að aðlögunin sé gerð af góðri virðingu við efnið. Kickstarter-söfnunin hefur þegar náð settu marki, þótt fjórir dagar séu enn eftir, og því stefnir allt í að Cox nái að hrinda myndinni af stað, en hann ætlar sér að vinna hana með hjálp frá nemendum sínum þar sem hann kennir kvikmyndagerð við Colorado-háskóla. Leikstjórinn er sannfærður um að hann muni ná að klára myndina fyrir minna en $100,000 og því má ætla að afraksturinn verði kærkomið mótvægi við þær rándýru Hollywood-myndir sem Cox fær ekki lengur að koma nálægt.
Bill, the Galactic Hero er áætluð til frumsýningar í desember 2014.