„Army of Darkness“ og tvær „Tales From the Crypt“ myndir eru meðal væntanlegra titla sem Scream Factory í Bandaríkjunum ætla að gefa út á komandi mánuðum.
„Army of Darkness“
Þessi var oft gefin út á DVD á sínum tíma og Blu-ray útgáfurnar virðast ekki ætla að vera færri. Myndin er í miklu uppáhaldi hjá „Evil Dead“ áhangendum sem og Bruce Campbell aðdáendum en kappinn mætir fljótlega á skjáinn í væntanlegri seríu frá STARZ, „Ash vs Evil Dead“, þar sem hann berst við hina viðskotaillu dauðu vikulega. Myndin er áframhald á „Evil Dead 2“ og er því í léttari kantinum og sækir innblástur til slíkra verka eins og „Gulliver‘s Travels“, „Jason and the Argonauts“ og „The Three Stooges“. Sjón er sögu ríkari en það er ekki af ástæðulausu að þessi telst algjört „költ“.
„Army of Darkness“ fær viðhafnarútgáfu („Collector‘s Edition“) og spennandi verður að sjá hvaða aukaefni prýðir diskinn. Öll þrjú mismunandi niðurlögin á myndinni hafa þegar sést á DVD útgáfum en lengi hefur verið orðrómur um að mörg eydd atriði eigi enn eftir að líta dagsins ljós. Aukaefninu verður ljóstrað upp fljótlega en myndin kemur út 27. október.
„Demon Knight“ og „Bordello of Blood“
„Tales From the Crypt“ hóf líf sem röð hryllingsmyndasagna á sjötta áratugnum en fyrsta bíómyndin kom út árið 1972 og var samansafn fimm stuttra saga um miður gott fólk sem hlaut verðskulduð örlög á endanum. Myndin skartaði fínum hóp leikara, þ.á m. Peter Cushing, Ralph Richardson og hinni síungu Joan Collins. Scream Factory gaf hana út á Blu-ray í desember á síðasta ári.
Sótt var til efniviðarins þegar HBO gerði seríu sem gekk í sjö ár og skartaði hún í gegnum árin fantafínum hóp leikara. Hver þáttur var um hálftími að lengd og fylgdi í grófum dráttum sömu lögmálum og hryllingsmyndasögurnar á árum áður; fólk sem gerir slæma hluti hlýtur viðeigandi örlög. Stór nöfn í kvikmyndaiðnaðinum tóku virkan þátt í gerð seríunnar og smásagnarformið komst aftur á kortið eftir mörg mögur ár.
Uppsveiflan var talsverð og tvær bíómyndir í fullri lengd komu út á árunum 1995 og 1996. Þær gengu undir titlinum „Tales From the Crypts presents…“ en voru þó heildstæðar myndir en ekki röð smásagna. Sú fyrri, „Demon Knight“, er í miklu uppáhaldi (hjá höfundi greinar a.m.k.) og fær viðhafnarútgáfu frá Scream Factory sem og „Bordello of Blood“. Áður voru þessar gefnar út á einum disk en myndirnar fá sína eigin útgáfu og spennandi verður að sjá hvort auakefnið réttlæti „Collector‘s Edition“ stimpilinn (og svínslega háa verðmiðann!).
Demon Knight“ þykir sú betri og skartar hún William Sadler í hlutverki eilífs verndara mannkyns sem berst við illskeytta djöfla sem stjórnað er af skrautlegum Billy Zane; sem aldrei þessu vant fer á kostum í rullu sem krefst ofleiks af fyrstu gráðu. Til allsherjar uppgjörs kemur í yfirgefinni kirkju þar sem limir fljúga og hausar fjúka en með í hasarnum er frú Jada Pinkett Smith, Thomas Hayden Church og Dick Miller. Óhætt að mæla með þessari. „Bordello of Blood“ er ekki alslæm þar sem hún skartar íhaldssama grínistanum Dennis Miller í hlutverki einkaspæjara sem leitar uppi vampírur í vændishúsi. Chris Sarandon fer á kostum sem gítaróður prédikari og Playboy skutlan Erik Eleniak og Corey Feldman eru með til halds og trausts. Þessar koma út 27. október.
„Death Becomes Her“
Þessi er ein af þeim sem er góð í minningunni en stendur einhvern veginn ekki undir væntingum þegar horft er á hana. Hún er þó með alveg stórkostlegar tæknibrellur sem líta enn vel út í dag og nokkur drepfyndin atriði sem gera það að verkum að hún lifir í minningunni. DVD útgáfan af „Death Becomes Her“ er með allra lakasta móti og því verður gaman að geta lagt hana til hliðar þegar þessi kemur út í háskerpu. En það veltur pínulítið á aukaefninu hve spenntur maður verður. Það þarf ekki annað en að kíkja á sýnishornið til að sjá að hellingur varð eftir á klippigólfinu og aðdáendur myndarinnar hafa lengi beðið spenntir eftir að sjá það.
Myndin var prufusýnd á sínum tíma fyrir lokuðum áhorfandahóp og hlaut miður góðar viðtökur og ráðist var í endurtökur. Í sýnishorninu sést Tracy Ullman í tveimur atriðum en hún er hvergi í myndinni og nokkur önnur skot sýna atriði sem hvergi bregða fyrir. Ef Scream Factory galdrar þetta fram eða jafnvel upprunalegu útgáfuna í fullri lengd getur þetta vel orðið einn af diskum ársins.
„Death Becomes Her“ á að koma út í nóvember.
„The Car“
Bílstjóralaus bíll neðan úr helvíti sem ekur niður fólk alveg hægri/vinstri hljómar eins og frekar kjánaleg mynd sem best væri að hlífa heilasellunum við og hreinlega sleppa. En það er eitthvað við „The Car“ sem viðheldur athyglinni og myndin nær að galdra fram furðu mikla spennu. Leikaravalið er ekki af verri endanum en James Brolin, R.G. Armstrong og John Marley (sem vaknaði með hestshöfuð við hlið sér í einni mynd) taka viðfangsefninu alvarlega og sýna góðan leik. Myndataka og undurfagurt landslag skemma ekki fyrir.
Einhverjir hljóta að vera hrifnir af myndinni en þetta er önnur viðhafnarútgáfan á Blu-ray. Arrow Films í Bretlandi gáfu út frekar hlaðinn pakka árið 2013 og spennandi að sjá hvort Scream Factory toppi hana. Þessi kemur út seint á árinu.