Febrúar er venjulega talinn vera „dömp“ mánuður fyrir kvikmyndir í bíó, sem þýðir oftast lélegra úrval en venjulega. Þessu er ég að mörgu leyti sammála. Þó svo að það séu enn ýmsar góðar myndir í sýningum (t.d. Avatar, Up in the Air, Sherlock Holmes, Cloudy og Bjarnfreðarson) þá er svo rosalega mikið af „meh“ myndum núna. Svona rólegur bíómánuður leiðir venjulega til þess að maður grípur frekar fjarstýringuna og hækkar í heimabíóinu í botn. Það gerði ég allavega núna í vikunni sem er að líða.
Þrátt fyrir að vera gagnrýnandi síðunnar (sem þýðir að ég fer á nánast allt) þá var bíóáhugi hjá mér voða lítill núna, og hefur verið það síðan mánuðurinn byrjaði. Ef ég sé góða mynd í bíó þá fer ég stundum á hana tvisvar, jafnvel þrisvar sinnum. Og vegna þess að góðu myndirnar sem ég taldi upp eru svo gamlar, þá er ekkert til að sjá núna af miklum áhuga aftur. Glætan að ég nenni t.d. að kíkja aftur á Edge of Darkness eða The Book of Eli. Sem betur fer er ýmislegt ágætt framundan (Brothers og Shutter Island eru efstar á þeim lista).
Áhorf vikunnar ættu allir að þekkja núna, a.m.k. fastagestir. Þið segið hvað þið sáuð nýtt (eða gamalt) og gefið því einkunn. Fínt að koma með nokkur orð líka. Gerir það skemmtilegra fyrir okkur hin til að lesa.
Mín kvikmyndavika leit svona út:
12 Angry Men – 10/10
Það er mjög hollt fyrir alla kvikmyndaáhugamenn að horfa á eina af sínum uppáhaldsmyndum í hverri viku, a.m.k. ef tími gefst. Það er líka alltaf góð ástæða að setja gæðamynd í tækið ef þið þekkið einhvern sem hefur ekki séð hana ennþá. Þessi mynd er alltaf gullmoli og mjög ofarlega á mínum lista yfir þær bestu myndir sem ég hef séð. Brilliant handrit, frábær leikur og leikstjórn.
The Wolfman – 6/10
Ég fíla þessa mynd talsvert betur en flestir gagnrýnendur. Hún nær fílingnum rétt en það vantar rosalega upp á sögu og persónusköpun. Hún flæðir þess vegna aðeins of hratt.
Pushing Tin – 7/10
Ég leitaði lengi af þessari mynd, fann hana loksins (giskið hvar). Hafði ekki séð hana í 8-9 ár. Finnst hún mjög vanmetin. Samspilið á milli John Cusack og Billy Bob er afar skemmtilegt.
The Taking of Pelham One Two Three (1974) – 8/10
Stóðst ekki mátið að kaupa þessa – á fínum prís líka. Hún er MIKLU betri en endurgerðin!
The Boondock Saints – 7/10
Alltaf jafn skemmtileg. Endirinn er samt pínu þurr. Vantar alveg „climax“ í lokin.
Boondock Saints II: All Saints Day – 2/10
Ef ég byrja að tala um hversu slæm þessi mynd er, þá hætti ég ekki. Áhugasamir geta lesið umfjöllunina mína á undirsíðu hennar.
Percy Jackson & The Lightning Thief – 6/10
Byrjaði illa en varð síðan bara nokkuð fín. Brellurnar hefðu mátt vera betri þó.
Svo er planið að taka My Bloody Valentine í tilefni dagsins, þ.e.a.s. gömlu myndina, ekki þessa nýju. Hún sökkar.