Tökur á nýrri mynd Ágústs Guðmundssonar, Ófeigur gengur aftur, hefjast í Reykjavík á þriðjudaginn, að því er fram kemur á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
Ágúst leikstýrir myndinni sem er svört kómedía. Söguþráður myndarinnar er á þann veg að Ófeigur, nýlátinn faðir Önnu Sólar, gengur aftur og fer að hlutast til um líf hennar og kærasta hennar, Inga Brjáns. Unga parið ætlar að selja hús hins látna en Ófeigur er því mótfallinn og vill ekki að þau flytji. Afskiptasemi afturgöngunnar er slík að Ingi Brjánn bregður á það ráð að reyna að kveða drauginn niður með aðferðum sem hann finnur í gamalli galdrabók.
Kvikmyndatöku annast Bergsteinn Björgólfsson og Ísfilm framleiðir, ásamt Ágústi sjálfum, Önnu Katrínu Guðmundsdóttur og Andy Paterson.
Laddi leikur Ófeig
Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Ágúst að Þórhallur Sigurðsson, Laddi, fari með titilhlutverk myndarinnar, hlutverk Ófeigs. Hann segir jafnframt í viðtalinu að frumsýning sé fyrirhuguð um páskana, eða í lok mars á næsta ári. „Ég er mjög kátur að vera að byrja á nýrri mynd,“ segir Ágúst í samtalinu við blaðið, en átta ár eru liðin síðan hann gerði Stuðmannamyndina Í takt við tímann. Ágúst hefur einnig gert myndirnar Mávahlátur, Með allt á hreinu, Land og syni, Útlagann og Dansinn svo einhverjar séu nefndar.