Margir bíða nú spenntir eftir því að vita hvaða verkefni Ben Affleck tekur að sér eftir velgengni myndar hans The Town, sem nú er í bíó á Íslandi.
Sagt er frá því á erlendum vefmiðlum að Ben Affleck sé nú að spá í handriti eftir skáldsögunni Replay, eða Endurtekning, eftir Ken Grimwood frá árinu 1987. Moviefone vefsíðan lýsir sögunni þannig að hún sé eins og ef að myndunum 17 Again og Groundhoug Day væri blandað saman.
Ken Grimwood gaf söguna út árið 1987 eins og fyrr sagði og fljótlega fóru Hollywood framleiðendur að snuðra í kringum söguna, þó ekkert hafi enn orðið af kvikmyndun hennar. Replay segir frá 43 ára útvarpsmanni sem fær banvænt hjartaáfall sem veldur því að hann vaknar upp í 18 ára gömlum líkama sínum, en með allar minningar sínar sem 43 ára gamall maður.
Allt gengur vel eftir þetta, eða þar til hann verður aftur 43 ára gamall og þá gerist það nákvæmlega sama aftur, og aftur og aftur.
Það væri gaman að sjá hvaða tökum Affleck myndi taka þessa sögu, ekki satt?