Affleck hættir við hryllinginn

Warner Bros hefur fundið leikstjóra til að taka við af Ben Affleck til að leikstýra myndinni The Stand sem gera á eftir samnefndri framtíðarhrollvekju Stephens King. Fyrirtækið hefur beðið Scott Cooper um að taka við keflinu af Affleck, og sömuleiðis að endurvinna handritið að myndinni.

scott cooper

 

Affleck hefur viðurkennt að hann eigi erfitt með að troða þessum risavaxna heimsendahrolli Kings inn í handrit sem hægt sé að vinna með svo vel sé.

Affleck hefur amk. opinberlega sagt sig frá verkinu, en upphaflega var Harry Potter leikstjórinn David Yates að skoða það.

Cooper er ungur leikstjóri, best þekktur fyrir að skrifa og leikstýra Jeff Bridges myndinni Crazy Heart frá árinu 2009. Síðasta mynd hans heitir Out of the Furnace, og er með Christian Bale og Casey Affleck í aðalhlutverkum, og verður frumsýnd nú í haust.

The-Stand-News

Þessi skáldsaga Stephen King, The Stand, fjallar um baneitraðan og stórhættulegan vírus sem er ræktaður af stjórnvöldum, sem óvart sleppur út úr rannsóknarstofu og drepur 99% mannkyns á nokkrum vikum. Sumarið eftir þessar hamfarir, þá byrja eftirlifendur að stofna tvær bækistöðvar, aðra í Boulder í Colorado fylki í Bandaríkjunum en hina í Las Vegas. Boulder bækistöðin er undir forystu eldri konu sem segist vera útsendari Guðs almáttugs, en leiðtogi Las Vegas bækistöðvarinnar er Randall Flagg, djöfulleg vera. Hóparnir tveir, einn góður og hinn illur, færast smátt og smátt nær átökum og lokauppgjöri.