Á miðnætti magnast spennan!

Á miðnætti í kvöld að íslenskum tíma hefst 73. Golden Globe verðlaunahátíðin í Hollywood, en hátíðin er jafnan talin gefa góð fyrirheit um hverjir munu þann 28. febrúar nk. hljóta Óskarsverðlaun. Hátíðin verður ekki sýnd í beinni útsendingu í íslensku sjónvarpi en vafalaust er hægt að horfa á hana á erlendum stöðvum eða á netinu.

big

The Big Short fjallar um veðlánakrísuna sem skók heiminn á fyrsta áratugnum.

Kynnir er breski grínistinn Ricky Gervais, en þetta er í fjórða skiptið sem hann er kynnir á hátíðinni. Hann þykir oft ganga fram á ystu nöf í gríni sínu, og draga Hollywood og einstakar persónur og leikendur sundur og saman í háði.

spotlight

Spotlight þykir sigurstrangleg

Það eru Samtök erlendra blaðamanna í Hollywood ( The Hollywood Foreign Press Association)  sem standa fyrir hátíðinni, en veitt verða verðlaun í 25 flokkum – 14 fyrir kvikmyndir og 11 fyrir sjónvarpsþætti.

Þær kvikmyndir sem keppa í dramahlutanum um verðlaunin fyrir Bestu mynd eru lesbíu-rómansinn Carol, spennutryllirinn Mad Max: Fury Road, óbyggðatryllirinn The Revenant, mannránsdramað Room og sannsögulega blaðmannamyndin Spotlight.

Í söng- og gamanhluta hátíðarinnar bítast veðlánakrísumyndin The Big Short, hin hálf-sannsögulega frumkvöðlamynd Joy, ævintýramyndin The Martian, gamanmyndin Spy,  og stefnumótagrínmyndin Trainwreck, um verðlaunin fyrir bestu mynd.

empire

Empire þættirnir eru tilnefndir

Í drama – sjónvarpshlutanum eru það Hip-hop þættirnir Empire, ævintýraþættirnir Game of Thrones, vísindatryllirinn Mr. Robot, eiturlyfjaþættirnir Narcos og búningadramað Outlander sem keppa um verðlaun fyrir bestu þætti. Í gaman – sjónvarpshlutanum eru það Casual, Orange is the New Black, Transparent, Mozart in the Jungle, Silicon Valley og Veep sem eigast við.

Þeir sem vilja fylgjast með hátíðinni á netinu þá verður IMDB vefsíðan með góða vakt, hvort sem er á vefsíðunni sjálfri, Facebook eða Twitter, og býður þar upp á vídeó, viðtöl, ljósmyndir og fleira.

Smelltu hér til að sjá heildarlista yfir tilnefningarnar.

 

Stikk: