Á annan veg keppir um eftirsóttu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs við fjórar aðrar myndir frá hinum Norðurlöndunum; En kongelig affære frá Danmörku, Company Orheim frá Noregi, The Punk Syndrome frá Finnlandi og Play frá Svíþjóð. Alls nemur verðlaunafé um sjö milljónum íslenskra króna og er veitt kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og býr yfir miklum listrænum gæðum. Kvikmyndin á einnig að sýna listræna nýsköpun og jafnframt þróa kvikmyndalistina með því að sameina hinar ýmsu hliðar hennar í sannfærandi og heilsteyptu verki.
Á annan veg segir af Finni og Alfreð, tveimur starfsmönnum Vegagerðarinnar á miðjum níunda áratugnum. Þeir dvelja sumarlangt á afskekktu svæði á norðurhluta landsins og mála línur á malbikaða vegi sem teygja sig inn í sjóndeildarhringinn. Þar sem þeir hafa einungis félagsskap hvors annars verða óbyggðirnar staður ævintýra, stormasamra atburða og uppgötvunar þar sem báðir menn standa á krossgötum í lífi sínu. Hilmar Guðjónsson og Sveinn Ólafur Gunnarsson fara með aðahlutverkin. Myndin hefur nú þegar verið endurgerð í Hollywood, undir nafninu Prince Avalanche, af leikstjóranum David Gordon Green, sem á að baki myndir á borð við Your Highness, Pineapple Express og The Sitter.
Í rökstuðningi íslensku dómnefndar um myndina segir: „Tveir ungir menn á fjallvegi í óbyggðum Íslands mála línur til að aðgreina akgreinar. Í samskiptum mannanna takast á öfl náttúru og siðmenningar. Samskipti við kvenfólk veldurumbrotum í sál og líkama, og í einsemd og návígi þessara tveggja manna verður smám saman til lítill heimur meðskörpu og kómísku sjónarhorni á karlmennskuímyndir. Styrkur myndarinnar liggur í kvikmyndamálinu, notkun myndar og hljóðs til þess að koma til skila einsemd og vináttu, draumum og vonbrigðum tveggja ungra manna. Hér er á ferðinni mögnuð „cinécriture“, myndmál sem stendur sjálfstætt og skapar sína eigin sögu. Einstakt áreynsluleysi, kímni, kraftur og þroski einkennir myndina og þegar upp er staðið, skörp kvikmyndasýn á mannlegt hlutskipti.“
Það er naumast! Þá er að vona að Á Annan Veg pakki saman keppinautunum og hirði þessi verðlaun, enda fínasta (og skemmtilega öðruvísi) mynd hér á ferð.