BÍÓDAGAR GRÆNA LJÓSSINS verða haldnir með pompi og prakt dagana 15. – 29. ágúst í Regnboganum. Um er að ræða 2ja vikna kvikmyndahlaðborð á vegum Græna ljóssins, þar sem frumsýndar verða um það bil 20 splunkunýjar og sérvaldar hágæða kvikmyndir frá öllum heimshornum.
Græna ljósið er eini aðilinn á Íslandi sem sérhæfir sig í útgáfu óháðra gæðamynda hvaðanæva að úr heiminum og kvikmyndaáhugamenn vita að þeir eiga von á góðu. Lögð verður áhersla á að takmarka fjölda kvikmynda, en vanda valið þeim mun betur og tryggja að hver einasta mynd njóti sín sem og að kvikmyndaáhugamenn hafi tækifæri til þess að sjá sem flestar af þeim myndum sem boðið verður upp á.
Ekki er þannig um eiginlega kvikmyndahátíð að ræða, þar sem aðeins er um 1-3 sýningar að ræða á miklum fjölda mynda, heldur er í raun verið að gefa út 20 sérvaldar kvikmyndir í einu lagi.
Myndunum verður skipt í þrjá flokka:
HEIMURINN: Kjarnaflokkurinn, óháðar gæða- og verðlaunamyndir frá öllum heimshornum.
HEIMILDARMYNDIR: Nokkrar sérvaldar, áhugaverðar og spennandi heimildarmyndir hvaðanæva að úr heiminum.
MIÐNÆTTI: Kvikmyndir af ýmsum toga sem eru ögrandi og umdeildar og oft á tíðum ekki fyrir viðkvæma.
Okkur er það mikið ánægjuefni að geta hér með tilkynnt að opnunarmynd BÍÓDAGA 2007 er SICKO, nýjasta meistarastykki Michael Moore, höfund myndanna Bowling for Columbine og Fahrenheit 9/11, sem er aðsóknarhæsta heimildarmynd allra tíma. Hér tekur hann fyrir bandaríska heilbrigðiskerfið og sýnir fram á stórkoslega og sjokkerandi galla þess, með samanburði við Evrópu…og Kúbu! Myndin var nýverið frumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni þar sem hún hlaut frábærar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda. Um myndina: http://www.imdb.com/title/tt0386032/
Auk þess getum við staðfest að auki eina mynd í viðbót úr hvorum hinna flokkanna: THE BRIDGE verður sýnd í Heimildarmyndaflokknum. Hér er á ferðinni heimildarmynd sem á sér engan líka. Leikstjórinn og tökulið hans komu fyrir myndavélum og fylgdust með Golden Gate brúnni í San Francisco úr leyni allt árið 2004. Hvergi annars staðar í heiminum er framin fleiri sjálsfmorð og áður en yfir lauk höfðu þeir fest á filmu hátt í 30 sjálfsmorð og náð að koma í veg fyrir nokkur, þegar þeir gátu það. Í kjölfarið leituðu þau uppi ættingja og vini þeirra látnu og tóku við þau einstök viðtöl, í viðleitini til að skilja hvað það er sem rak fólkið fram af brúnni. Sláandi heimildarmynd sem lætur engan ósnortinn. Um myndina: http://www.graenaljosid.is/titlar/vaentanlegt/nr/55
NO BODY IS PERFECT verður sýnd í Miðnæturflokknum. Í þessari heimildarmynd er kafað dýpra en nokkur hefur áður gert ofan í þá undirheima sem snúast um alls kyns öfgafulla erótíska tilraunastarfsemi, líkamsbreytingar, kynskiptiaðgerðir og hardcore masókisma. Myndin er sláandi og sjokkerandi ferð til ystu endimarka þessarar veraldar og segir á opinskáan hátt frá öfgafyllstu hugmyndum sem menn hafa fengið varðandi sinn eigin líkama. Það skal tekið fram að myndin er alls ekki við hæfi viðkvæma. http://www.graenaljosid.is/titlar/vaentanlegt/nr/58
Búast má við góðum gestum til landsins í tengslum við Bíódagana og verður þá boðið upp á svokallaðar Spurt og svarað sýningar, þar sem bíógestum mun gefast kostur á að spyrja kvikmyndargerðarmennina spjörunum úr í kjölfar sýninga mynda þeirra. 10 mynda afsláttarkort verður til sölu í takmörkuðu magni og verður til sölu á Miða.is. Þar verður einnig hægt að versla miða á allar sýningar Bíódaganna og skoða dagskránaa. Allar upplýsingar um Bíódagana og myndirnar verður hægt að nálgast á heimasíðu Græna ljóssins og verður sérstök áhersla lögð á að veita skráðum meðlimum í Bíóklúbbi Græna ljóssins forgang á alla atburði Bíódaganna, kaup á afsláttarkortum osfrv.

