Framhald af hinni tölvuteiknuðu Final Fantasy virðist nú vera afar ólíklegt. Sony, sem framleiðir myndina var búið að gefa út þá yfirlýsingu að ef Final Fantasy myndi taka inn að minnsta kosti 35 milljónir dollara fyrstu sýningarhelgina myndu þeir gefa grænt ljós á framhald strax. Nú er ljóst að myndin tók ekki inn nema um 11 milljónir og kemur varla til með að skila kostnaði nema þá helst með gríðarlegum tölum frá Japan, en leikurinn sem myndin er byggð á er frá Japan. Þrátt fyrir einstaka góða dóma virðist myndin ekki vera að falla í kramið og flestir hörðustu aðdáendurnir náðu að sjá myndina strax á miðvikudeginum síðasta og tölur helgarinnar voru í engu samræmi við fyrsta sýningardaginn. Þetta eru slæm tíðindi fyrir unnendur teiknimynda fyrir eldri aldurshóp, en síðasta slík mynd sem var Titan A.E bombaði einnig vel í miðasölunni.

