Framleiðendur þáttarins Jericho voru búnir að ákveða að hætta framleiðslu fyrir nokkru. Aðdáendur þáttarins voru eitthvað ósáttir við þessa ákvörðun og tóku upp á því að senda framleiðendum þáttanna hnetur (e. nuts). Í þættinum sem átti að vera sá síðasti sagði ein aðalsöguhetjan nefnilega ‘nuts’ þegar nágrannabær krafðist þess að íbúar Jericho gæfust upp. Fyrirtæki sem dreifir hnetum gegn greiðslu leyfði aðdáendum þáttanna að notast við heimasíðu sína til að safna liði og hefur vefsíðan orðið samastaður samtakanna Nuts for Jericho. Samkvæmt heimasíðunni voru um 18.000 hnetur sendar til framleiðenda áður en þeir gáfu frá sér tilkynningu um að gera eigi sjö þætti í viðbót og að fleiri munu fylgja í kjölfarið ef áhorfið eykst. Tilkynningunni lauk með beiðni til aðdáenda um að hætta að senda hnetur.

