Nú er árið að taka enda og kominn tími til að kíkja á hvernig árið hefur staðið sig þegar það kemur að úrvali bíómynda. Flestir eru þó sammála um að árið hafi verið slappt þegar kemur að kvikmyndaúrvali, enda hafa þessar týpísku Hollywood myndir verið ansi einsleitar.
Þrátt fyrir þessa staðreynd hafa Íslendingar verið ansi duglegir að fara í bíó, þrátt fyrir ótrúlega hátt miðaverð og lélegt úrval. Fjölmargar kvikmyndahátíðir hafa án efa hjálpað til, Reykjavík International Film Festival, Hinsegin Dagar Bíófestival og fleiri hafa náð því að draga marga í bíósalinn. Fleiri kvikmyndahátíðir hafa vakið athygli, t.d. frönsk kvikmyndahátíð, kanadísk og ítölsk. Þetta er gríðarlega jákvæð þróun og þessar kvikmyndahátíðir eru klárlega komnar til að vera. Íslensk framleiðsla hefur einnig vaxið og hækkað staðalinn fyrir komandi ár, þar ber helst að nefna Mýrin, Börn, A Little Trip to Heaven, Köld Slóð og Blóðbönd. Ég man ekki eftir jafn miklum gæðum í innlendri framleiðslu, og aðstandendur þessara mynda eru frumkvöðlar kvikmyndaframleiðslu á Íslandi og munu vafalaust tryggja áframhaldandi gæði á komandi árum.
Komandi ár felur í sér nýjungar, einkum á þessari síðu, kvikmyndir.is, en fleiri fregnir munu koma af því síðar. Græna Ljósið mun standa fyrir auknu framboði á sjálfstæðum kvikmyndum. Þetta mun hefjast 5.janúar með frumsýningu á Little Miss Sunshine, og Græna Ljósið mun hafa 1-2 kvikmyndir til frumsýningar í hverjum mánuði allt næsta ár. Þetta veldur því að val manna á sjálfstæðri kvikmyndagerð mun ekki einkvarðast við stakar kvikmyndahátíðir. Mekka Græna Ljóssins mun verða bíóhús Regnbogans. Þetta er frábært framtak og mun án efa hljóta góðar undirtektir. Nánari upplýsingar má fá á vefsvæði Græna Ljóssins, www.graenaljosid.is.
Þegar kemur að því að velja bestu (og verstu) kvikmyndir ársins, er ekki um mikið að velja. Að mínu mati, og þetta er eingöngu mitt mat og tengist á engan hátt álitum annarra vefstjóra á kvikmyndir.is, stal Children of Men senunni. Aðrar myndir sem hafa borið af á árinu eru The Departed, Borat, Casino Royale og Mýrin. Versta mynd ársins er án efa (að mínu mati) Snakes on a Plane. Venjulega er venjan ekki að einblína á slæmar kvikmyndir, en þessi mynd er of léleg til þess að sleppa henni!
Að lokum viljum við óska öllum notendum á kvikmyndir.is gleðilegs nýs árs og þökkum fyrir það gamla. Framtíðin er björt á komandi ári og að sjálfsögðu óskum við öllum velfarnaðar á nýju ári.

