Leikstjórinn Dagur Kári Pétursson er tilnefndur til Sundance/NHK verðlaunanna fyrir árið 2007. Verðlaunin eru veitt árlega á Sundance kvikmyndahátíðinni, sem fram fer í janúar. Hátíðin, sem leikarinn Robert Redford setti á fót, er ætluð upprennandi kvikmyndagerðarmönnum.
Dagur Kári er tilnefndur auk 12 kollega sinna en hann hlýtur tilnefninguna fyrir handrit sitt að kvikmyndinni The Good Heart, sem nú er í undirbúningi.
Verðlaunin nema 10 þúsund dollurum (eða um 700 þúsund íslenskum krónum) auk þess sem japanska sjónvarpsstöðin NHK kaupir verk vinningshafans til sýninga. Frá þessu greinir á vef Lands og sona.

