Hostel 2 tekin upp á Íslandi!

Fyrirhugað er að taka hluta hryllingsmyndarinnar Hostel II hér á landi og er von á leikstjóranum Eli Roth ásamt framleiðendum og aðstandendum myndarinnar til landsins um næstu helgi til að skoða tökustaði. Áætlað er að tökur hérlendis fari fram um mánaðamótin október-nóvember.

„Þeir leituðu til mín í ljósi vel heppnaðrar Íslandsheimsóknar sem ég skipulagði á síðasta ári fyrir þá þegar Hostel var heimsfrumsýnd hér á landi. Eli hefur lengi verið mikill Íslandsaðdáandi en í heimsókninni hingað til lands hrifust hinir framleiðendurnir einnig af landi og þjóð. Eli gerði allt sem hann gat til þess að hafa Ísland inni sem tökustað fyrir framhaldið af fyrri myndinni og hann skrifaði þessi atriði inn í handritið til þess að hafa afsökun fyrir því að koma aftur til Íslands, þar sem það hefur lengi verið draumur hjá honum að mynda hér. Svo gæti þetta hugsanlega verið góður undirbúningur fyrir að taka heila kvikmynd á Íslandi síðar meir,“ segir Eyþór.

Framleiðendur Hostel II hafa ráðið True North til þess að sjá um allar hliðar kvikmyndatökunnar hér á landi. True North sá m.a. um alla umgjörð kvikmyndatöku Flags of our Fathers í leikstjórn Clints Eastwood á síðasta ári við góðan orðstír.

Með Eli Roth í för verða kvikmyndaframleiðendurnir Chris Briggs og Mike Fleiss, sem stóðu að baki framleiðslu Hostel í samvinnu við Lion’s Gate og Sony, en sömu aðilar standa einnig að baki Hostel II. Mike Fleiss er sagður vera einn af áhrifamestu mönnum Hollywood í kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðslu en hann á meðal annars Bachelor- og Bachelorette-sjónvarpsþættina. Þá koma einnig meðframleiðendur myndarinnar, þeir Daniel Frisch, Philip Waley og Gabriel Roth, ásamt aðstoðarleikstjóra myndarinnar, Mark Taylor, kvikmyndatökumanninum Milan Chadima og leikmyndahönnuðinum Robb King.

Það er alltaf skemmtilegt að sjá að Ísland er að slá í gegn erlendis, og þykir óhætt að segja að þetta verði hreint út sagt mögnuð kynning á klakanum góða, og gaman verður að sjá þennan vinsamlega og hæfileikaríka leikstjóra Eli Roth á kunnuglegum slóðum enn á ný. Væntingarnar eru því komnar á fullt fyrir næstu mynd hans, sem verður væntanlega frumsýnd á næsta ári.