Framhaldsmyndaflóðið heldur áfram

Eins og framhaldsmyndir séu ekki nógu oft í fréttum hér hjá okkur þá höfum við meira að færa. En eftir gífurlega aðsókn síðustu helgi í Bandaríkjunum er búið að ákveða að gefa grænt ljós á aðra BOOGEYMAN mynd. Myndin kostaði eitthvað um 20 milljónir í framleiðslu og komst upp í þá fjárhæð strax á fyrstu helginni. Þessi mynd fékk reyndar vægast sagt slæma dóma hjá gagnrýnendum og voru áhorfendur ekki sáttir við hana heldur í meirihlutanum. En svona er bransinn. Seðlarnir skipta miklu meira máli heldur en gæðin.

Síðan sögðum við hér áður frá því að spennuhrollvekjan SAW muni einnig gefa frá sér annan skammt eftir allar þær vinsældir sem hún hefur sópað að sér. Leigh Whannell og James Wan segja að handritið sé næstum því fullklárað og það að myndin ætti pottþétt að skila sér í bíóin vestanhafs í kringum október á þessu ári. En fyrir þá sem ekki vissu þá var fyrri myndin gerð fyrir hið minnsta fjármagn og tók aðeins 18 daga að kvikmynda hana. Seinni myndin mun bera hið bráðskemmtilega heiti SAW: HACKSAW.