Snillingurinn Steve Buscemi ætti að vera öllum sönnum kvikmyndaaðdáendum að góðu kunnur. Hann hefur leikið í gríðarlega mörgum myndum og ávallt verið það besta við hverja mynd sem hann hefur leikið í. Hann hefur einnig reynt hönd sína við leikstjórn, og það með prýðilegum árangri. Báðar myndirnar hans, Trees Lounge og Animal Factory voru mjög góðar, og nú ætlar hann að leikstýra sinni þriðju. Nefnist hún Lonesome Jim, og verður með þeim Liv Tyler og Casey Affleck (bróður hans Ben) í aðalhlutverkum. Fjallar hún um ungan mann sem neyðist til þess að flytja aftur á æskuslóðir eftir að draumar hans um að gera góða hluti í stórborginni urðu að engu. Nú tekur við uppgjör hans við fjölskylduna, gamla hverfið og unga móður sem hann er orðinn ástfanginn af. Tökur á myndinni hefjast í febrúar.

