Heimilda – og stuttmyndahátíð Félags kvikmyndagerðarmanna, Reykjavík Shorts & Docs, hefst í dag og verður sett við hátíðlega athöfn í Háskólabíói kl. 18.00. Hátíðin stendur frá 30. apríl til 4. maí.
Opnunarmynd hátíðarinnar er My Terrorist / Hryðjuverkamaðurinn minn eftir Yulie Gerstel Cohen frá Ísrael. Myndin segir frá baráttu höfundarins fyrir því að hryðjuverkamaður sem réðist á hana og samstarfsfólk hennar fyrir 20 árum verði látinn laus úr fangelsi. Gerstel Cohen fjallar á afar persónulegan og hreinskilinn hátt um ísraelskt samfélag, ástandið á hernumdu svæðunum og trú sína á að friðsamleg lausn geti fundist. Myndinni má líkja við hraðnámskeið í blóði drifinni sögu Ísraels allt frá sex daga stríðinu til uppreisnar Palestínumanna á hernumdu svæðunum og áhrifum hryðjuverka, hernaðar og ofbeldis.
Sýndar verða 43 myndir frá 15 löndum auk Íslands, 27 stuttmyndir og 16 heimildamyndir. Fjórar íslenskar heimildamyndir verða frumsýndar á hátíðinni og þrjár stuttmyndir. Flestar erlendu myndanna eru um þessar mundir sýndar á virtum kvikmyndahátíðum víða um heim og margar þeirra hafa unnið eða verið tilnefndar til helstu verðlauna sem veitt eru heimilda- og stuttmyndum.
Dagskrá hátíðarinnar má skipta í þrjá flokka:
1. Úrvalsmyndir frá ýmsum löndum
2. Norrænar verðlaunamyndir – Nordisk Mini Panorama
3. Íslenskar heimilda- og stuttmyndir.
Í dagskrárblaði hátíðarinnar er stuttlega sagt frá efni hverrar myndar og nefnd helstu verðlaun og tilnefningar. Hér verða aðeins tilgreind örfá dæmi, en að öðru leyti vísast til dagskrárblaðsins og heimasíðu hátíðarinnar sem er á vegum hönnunardeildar Borgarholtsskóla á slóðinni www.shortdocs.info
Alt om min far / Allt um föður minn frá Noregi hlaut norsku Amanda verðlaunin sem besta norska kvikmyndin árið 2002 og var tilnefnd til Norrænu kvikmyndaverðlaunanna
Family / Fjölskylda frá Danmörku var valin Besta myndin á Alþjóðlegu heimildamyndahátíðinni í Amsterdam 2002 og á Nordisk Panorama 2002. Family var besta danska heimildamyndin 2002 að mati dönsku kvikmyndaakademíunnar.
Ruthie og Connie frá BNA hefur fengið fjölda verðlauna á kvikmyndahátíðum víða um heim, m.a. kvikmyndahátíðum lesbía og homma í New York, Los Angeles og Toronto.
Missing Allen / Allens saknað frá Þýskalandi var valin Besta heimildamyndin á Kvikmyndahátíðinni í Montreal 2001 og tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2002 í flokki heimildamynda.
Burst er stutt dansmynd eftir Reyni Lyngdal og Katrínu Hall. Myndin er hluti af nýrri samnorrænni dansmyndasyrpu, Moving North.
Volver a vernos / Börn Pinochets – Endurfundir frá Þýskalandi hefur vakið mikla athygli á kvikmyndahátíðum sem tengjast mannréttindabaráttu.
Malcolm frá Svíþjóð var valin Besta stuttmyndin á Nordisk Panorama 2002.
Starkiss / Indversku sirkusstúlkurnar frá Hollandi fjallar um stúlkur sem eru teknar kornungar frá fjölskyldum sínum og haldið í einangrun og þrælkun í sirkus.
Tvær færeyskar heimildamyndir verða sýndar á hátíðinni.
Ég er arabi segir Guðbergur Bergsson í nýrri heimildamynd Sigurðar Guðmundssonar og Ara Alexanders um viðhorf Íslendinga til árásastríðs Bandaríkjanna gegn Írak.

