Helstirnið Tom Cruise mun að öllum líkindum leika aðalhlutverkið í endurgerð gamanmyndar frá árinu 1942 sem heitir I Married A Witch. Columbia kvikmyndaverið framleiðir myndina, sem leikstýrt verður af Danny DeVito og fjallar um mann sem fæddist með þá ættarbölvun að hann myndi giftast rangri konu. Bölvunin var sett á forföður hans á 17. öldinni af norn einni, og birtist hún skyndilega á okkar tímum til þess að sjá til þess að bölvunin gangi eftir. Hún verður síðan ástfangin sjálf af manninum, og þá verður kátt á hjalla. Upphaflega ætlaði Cruise að leika í myndinni fyrir 5 árum síðan, og þá ætlaði þáverandi kona hans, Nicole Kidman, að leika á móti honum. Það verður nú lítið úr því úr þessu, en enn hefur ekki verið ákveðið hver eigi að leika kvenhlutverkið á móti Cruise. Jafnvel þó hann ákveði að leika ekki í myndinni þá mun hann engu að síður framleiða hana í gegnum Cruise/Wagner framleiðslufyrirtæki sitt.

