Áður en leikstjórinn Ron Howard hefst handa við að leikstýra Cinderella Man með Russell Crowe í nóvember, þá mun hann leikstýra myndinni The Missing, en hún er byggð á bókinni The Last Ride eftir Thomas Eidon. Undirbúningur er þegar hafinn að myndinni, sem gerist árið 1886 og fjallar um 76 ára gamlan indíanastríðsmann að nafni Samuel Jones. Hann veit að hann á ekki langt eftir, og ákveður því að reyna að sættast við dóttur sína sem hann hafði yfirgefið 30 árum fyrr. Hann þarf að ferðast langa leið yfir hættulegt svæði, og þegar hann kemst loksins á leiðarenda, kemst hann að því að Apache indíánar eru búnir að ræna henni og dóttur hennar. Hann þarf þá að ganga í lið með eiginmanni hennar í leit að henni. Tökur á myndinni hefjast í mars, og með aðalhlutverk fara Tommy Lee Jones og Cate Blanchett.

