Okkur barst eftirfarandi fréttatilkynning um nýjan vef sem er verið að opna um þessar mundir:
Guð á hvíta tjaldinu – vefurinn Deus ex cinema opnar
Laugardaginn 23. júní, kl. 11:00, verður vefurinn Deus ex cinema – vefur um trúarstef í kvikmyndum – opnaður með formlegum hætti. Opnunin fer fram í málstofu Deus ex cinema á Kirkjudögum, í stofu 2, á fjórðu hæð í Iðnskóla.
Slóðin að vefnum er: http://www.dec.hi.is
Áður en opnunin fer fram munu Árni Svanur Daníelsson og Þorkell Ágúst Óttarsson kynna trúarstef í kvikmyndum. Sýnd verða nokkur vel valin dæmi um tilvísanir til Krists og Kristsgervinga í kvikmyndum. Í anda umfjöllunarefnisins verður boðið upp á popp og kók. Allir eru velkomnir.
Vefurinn Deus ex cinema er upplýsingavefur um trúarstef í kvikmyndum. Hann hefur verið í þróun síðastliðna þrjá mánuði. Að honum standa guðfræðingar, bókmenntafræðingar og kvikmyndafræðingar sem hafa lagt stund á rannsóknir á trúarstefjum í kvikmyndum. Á vefnum er nú að finna umfjallanir um trúar- og siðferðisstef í meira en 50 kvikmyndum. Vefurinn geymir einnig vefrit sem í eru pistlar um trúarstef, lengri fræðigreinar og umfjallanir um bækur. Loks eru á vefnum ítarlegar ritaskrár, umræðutorg og fleira.

