Leikstjórinn vinsæli, Steven Soderbergh, hefur sagt að hann muni taka sér árs frí frá leikstjórn eftir að nýjasta kvikmynd hans, sem er endurgerðin af rússnesku vísindaskáldsögunni Solaris, hefur verið frumsýnd. Hann hefur þó tekið að sér að leikstýra einum þriðja af væntanlegri kvikmynd sem nefnist Eros. Myndinni átti að verða leikstýrt af þremur leikstjórum, þeim Michaelangelo Antonini, Wong Kar-Wai (sem leikstýrði snilldinni In The Mood For Love), og hinum sívinsæla Pedro Almodovar. Almodovar hefur nú ákveðið að hætta við þátttöku, og mun Soderbergh leikstýra hans hluta í hans stað. Almodovar mun þó engu að síður verða í ráðgjafarhlutverki við gerð myndarinnar, sem fjallar líkt og titillinn gefur til kynna um bæði ást og losta mannanna. Myndin verður tekin upp í Evrópu og er fjármögnuð af Ítölum.

