Handritshöfundur hinnar bandarísku hryllingsmyndarinnar The Ring, en hún er endurgerð hinnar japönsku snilldar Ringu, Ehren Kruger að nafni hefur nú aldeilis dottið í lukkupottinn. Velgengni myndarinnar í kvikmyndahúsum vestra hefur valdið því að hann er búinn að gera samning upp á milljón dollara um að skrifa fyrir Universal kvikmyndaverið tvær myndir. Sú fyrri nefnist Skeleton Key, og þrátt fyrir að söguþræðinum sé haldið leyndum er vitað að það verður hryllingsmynd svipuð og The Ring. Sú síðari er handrit gert eftir skáldsögu Stephen King og Peter Straub sem nefnist The Talisman. Sú saga fjallar um ungan dreng sem flakkar á milli tveggja heima í leit að lækningu handa deyjandi móður sinni. Steven Spielberg framleiðir.

