LucasFilm hreinsar til

Fyrirtæki George Lucas, LucasFilm, hóf mikla innanhússrannsókn eftir að upp komst að Harry Knowles hjá Aint It Cool News síðunni sá Star Wars: Attack Of The Clones einum tveimur mánuðum fyrir frumsýningu hennar. Böndin bárust að manni að nafni Shea O´Brian Foley, og hefur hann nú verið handtekinn. Þegar lögreglan gerði húsleit heima hjá honum, fundust 19 geisladiskar af Star Wars hljóðbrellum, rúmar 2000 ljósmyndir, 113 storyboards, hundruðum vídeóskráa, ásamt haug af öðru efni. Foley vann hjá LucasFilm sem aðstoðarmaður við framleiðslu á þeim tíma sem AOTC var í vinnslu, en þó hafa bæði hann og Knowles þverneitað að það hafi verið hann sem reddaði Knowles eintaki af myndinni. Hann er engu að síður sekur um að hafa stolið öllu þessu efni meðan hann vann fyrir Lucas, og hefur verið ákærður fyrir þjófnað og tölvuinnbrot.