Carrey og Shandling í Over The Hedge

Jim Carrey og Garry Shandling munu tala inn á tölvuteiknimynd Dreamworks/PDI sem ber heitið Over The Hedge. Myndin fjallar um þvottabjörninn RJ og besta vin hans, skjaldbökuna Verne sem er heimsspekingur með ofnæmi. Þeir eru semsagt félagar og lenda í ýmiskonar ævintýrum saman. Myndin er byggð á myndasögunni Over The Hedge, sem skrifuð er af Michael Fry og T. Lewis, og er í anda Calvin & Hobbs. Henni er ætlað að vera mótsvarið við Pixar myndinni Cars sem leikstýrt er af snillingnum John Lasseter, en báðar myndirnar koma árið 2005. Þetta verður í fyrsta sinn sem gúmmísmettið Carrey talar inn á teiknimynd og verður gaman að sjá hvernig honum tekst til.