Garner hækkar í verði

Jennifer Garner, sem slegið hefur í gegn í sjónvarpsþáttunum Alias sem sýndir eru í bandarísku sjónvarpi, fær líklega 3 milljónir dollara fyrir að leika aðalhlutverkið í kvikmyndinni 13 Going On 30. Verður myndin í anda Big, þar sem ósk ungrar 13 ára stúlku um það að vera þrítug, falleg og vinsæl kona, rætist á ófyrirséðan hátt. Garner er orðin svo heit í Hollywood, ekki bara eftir Alias, heldur eftir að hafa landað hlutverki Elektra í Daredevil myndinni væntanlegu, að hún fær sjálf að velja leikstjóra myndarinnar. Hún hefur lokaorðið um það hver situr við stjórnvöl myndarinnar, og er það nánast óþekkt svo snemma á ferli einhvers. Tökur á myndinni eiga að hefjast á næsta ári þegar hlé verður gert á tökum Alias.