Baker yfirgefur Köttinn

Förðunarsnillingurinn Rick Baker, sem staðið hefur á bak við mörg af frægustu gervum kvikmyndasögunnar, þar á meðal An American Werewolf In London, hefur nú yfirgefið væntanlega kvikmynd um The Cat In The Hat (Kötturinn með Höttinn) vegna listræns ágreinings. Það sem gerðist var það að hann var búinn að skila af sér mörgum mismunandi hugmyndum um það hvernig hann hyggðist skapa gervi kattarins, en í hvert sinn þá hafnaði annaðhvort aðalleikarinn Mike Myers hugmyndinni, eða þá leikstjórinn Bo Welsh. Á endanum fékk Baker nóg, sagðist ekki hafa fleiri hugmyndir um hvernig það mætti láta gervið virka, og hætti þar með. Þetta er skrítin framvinda, enda þótti Baker standa sig með afbrigðum vel við gerð annarrar kvikmyndar eftir bók Dr. Seuss, en það var einmitt How the Grinch Stole Christmas!. Búið er að hafa samband við önnur brellufyrirtæki, og hafa þau tvær vikur til þess að skila af sér hugmyndum um gervi.