XXX-2 strax árið 2004?

Hin væntanlega kvikmynd xXx, sem skartar vöðvabúntinu Vin Diesel í aðalhlutverki, virðist greinilega vera orðin sumarsmellur fyrirfram. Að minnsta kosti er búið að skrifa undir samning við leikstjórann Rob Cohen og Diesel um að leika í framhaldinu og á það að koma í bíó sumarið 2004. Þeir hafa áður unnið saman, en það var við gerð The Fast and the Furious, og virðast eiga auðvelt með að skapa þessa tegund kvikmynda sem kalla á framhöld. Einnig er þegar byrjað að vinna í handriti að XXX-2, og hefur handritshöfundur XXX, Rich Wilkes, þegar hafist handa við gerð framhaldsins. XXX verður frumsýnd vestra í ágúst.