Leikstjórinn John Singleton, frægastur fyrir myndina Boyz N the Hood, mun taka að sér að leikstýra endurgerðinni að hinni klassísku seríu um Sinbad sæfara. Gömlu Sinbad myndirnar voru aðallega frægar fyrir skrímslin sem voru hönnuð og gerð af goðsögninni Ray Harryhausen, en standa þó enn uppúr sem frábærar ævintýramyndir. Nú ætlar Singleton að ná töfrunum upp á hvíta tjaldið að nýju og er að sögn kominn í góðan gír fyrir stóra brellumynd. Neal Moritz mun framleiða myndina fyrir Columbia kvikmyndaverið, og er handritið skrifað af Tedi Sarafian sem einnig gerði handritið fyrir þriðju Terminator myndina sem nú er að líta dagsins ljós. Vonast er til þess að myndin komi í bíó sumarið 2003.

