Síðastliðnar vikur höfum við orðið fyrir engu smá aðkasti frá veðrinu. Við erum búin að sitja undir árás frá þrumum og eldingum, hagli og þvílíku magni af roki og rigningu. Þegar veðrið er svona brjálað hefur maður tilhneigingu til þess að hanga heima og taka fram gamalt og gott DVD eða einfaldlega horfa á sjónvarpið (þá sérstaklega handboltann. ÁFRAM ÍSLAND!)
Þið ættuð að vera farin að þekkja þetta núna. Það er komið að áhorfi vikunnar þar sem allir fá útrás og tjá sig um hvaða myndir horft var á í vikunni og hvort þær voru nýja uppáhalds myndin ykkar eða algert fúlegg. Þið skrifið einfaldlega niður þær myndir sem þið horfðuð á hér fyrir neðan í spjallinu, gefið þeim einkunn og skrifið eitthvað um þær (ef þið nennið).
Ég skal byrja:
Avatar – 10/10
Ótrúlegt sjónarspil
Cloudy with a Chance of Meatballs – 8/10
Sjúklega fyndin, girnileg og það er brandari í næstum því hverjum ramma. Mjög hröð og þess vegna örugglega ekki fyrir þau allra yngstu.
Whip It – 5/10
Hef séð þessa sögu oft áður. Ágætis afþreying samt.
District 9 – 10/10
Besta mynd sem ég hef séð í langan tíma. Ótrúleg í alla staði. Frumleg og flott.
Inglourious Basterds – 7/10
Flott handrit og Christopher Waltz vinnur leiksigur. Kjánaleg á góðan hátt en inn á milli er hún líka kjánaleg á slæman hátt.
Svo horfði ég líka á nokkra þætti eins og fyrstu seríuna af Black Books (7/10 – Tveir þættir voru snilld. Hinir voru la-la), nokkra þætti í annarri seríu Grey’s Anatomy sem voru ágætir, en voðaleg sápuópera á köflum og svo nýja Project Runway þáttinn sem var alveg frábær. Fólk náði að búa til alveg ótrúlegustu flíkur úr kartöflupokum.