Enn einn hryllingsleikurinn sem kvikmynd

Ekki nóg með að Resident Evil og House of the Dead séu að verða að kvikmyndum, heldur á nú að fara að búa til bíómynd úr Alone in the Dark leikjaseríunni frægu. Dimension Films framleiðslufyrirtækið er búið að fá handritshöfundinn Hans Rodinoff ( Man-Thing) til þess að skrifa handritið, en myndin á að fjalla um rannsakendur þess yfirnáttúrulega sem festast á eyju þar sem óhugnarlegir íbúar búa í skuggunum. Þetta er víst nokkurn veginn sami söguþráður og í nýjasta Alone in the Dark leiknum en hann heitir The New Nightmare. Framleiðendur myndarinnar verða Harvey Weinstein , Andrew Rona, Don Murphy og Rick Benattar.