Nýjustu fréttir af Hulk

Nýjustu fréttir af væntanlegri mynd leikstjórans Ang Lee um ofurhetjuna Hulk eru þær að sá sem kemur sterkast til greina í hlutverk vísindamannsins Bruce Banner, sem breytist í hinn ógurlega Hulk, er leikarinn Eric Bana sem er best þekktur fyrir að hafa leikið aðalhlutverkið í kvikmyndinni Chopper. Bana, sem er þekktur ástralskur leikari, stal senunni algjörlega í Chopper og væri gaman að sjá hann í hlutverkinu. Aðrar fréttir eru þær að orðrómurinn sem gekk á netinu um að snillingurinn og förðunarmeistarinn Rick Baker ( Planet of the Apes , How the Grinch Stole Christmas! ) myndi sjá um förðun og hönnun á skrímslinu Hulk, eru ekki alveg sannur. Sannleikurinn er sá, að ekki var farið að tala við Baker, fyrr en orðrómurinn fór að ganga á netinu, og standa nú samningaviðræður við hann yfir. Ljóst þykir orðið, að skrímslið verður bæði gert í tölvum og sér brellufyrirtækið Industrial Light And Magic (ILM) um þá hlið, og hins vegar verða einhverjar förðunarbrellur notaðar í nærmynd og vonandi fæst Baker í þá hlið mála. Myndin er væntanleg í kvikmyndahús vestra sumarið 2003.