Ég sat með fæturna dinglandi út úr þyrlunni yfir eldgosinu

Í nýjustu íslensku stórmyndinni Eldarnir fer Vigdís Hrefna Pálsdóttir með aðalhlutverkið sem Anna, eldfjallafræðingur og móðir sem stendur frammi fyrir erfiðri togstreitu í einkalífi sínu á sama tíma og náttúruöflin hóta samfélaginu. Við ræddum við Vigdísi um ferlið, samstarfið við erlenda leikara og hvernig íslensk náttúra setti svip sinn á upplifunina.

Myndin er stór alþjóðleg framleiðsla. Hvernig var fyrir þig að stíga inn í svona umfangsmikið sett í samanburði við það sem þú hefur unnið við áður?
„Ferlið hófst ári áður þegar ég fór í prufu og fékk hlutverkið. Ég og Ugla, leikstjórinn, náðum strax góðu sambandi og unnum saman að því að skilja Önnu og hvað knýr hana áfram. Það gerði það að verkum að þegar tökur hófust fannst mér ég þekkja persónuna vel. Þetta var fyrsta stóra burðarhlutverkið mitt í svona miklu umfangi, því áður hef ég mest leikið minni hlutverk. En þrátt fyrir umfangið var aldrei stress á setti. Þetta var eins og vel stillt vél þar sem allir unnu saman af virðingu og kærleika. Ég fann mikinn stuðning bæði frá leikurum og tæknifólki og það er ómetanlegt þegar maður er í aðalhlutverki.“

Þú lékst mikið á móti danska leikaranum Pilou Asbæk. Hvernig var að byggja upp þessa spennu og nánd milli persónanna?
„Við hittumst með leikstjóranum áður en tökur hófust og áttum mjög opið samtal. Til að skapa trúverðuga nánd þarf traust og heiðarleg samskipti. Við ræddum hreinskilnislega hvað okkur fyndist þægilegt og hvað ekki og það hjálpaði mikið. Pilou er einstaklega fyndinn, opinn og hlýr og við náðum strax góðu sambandi og urðum vinir. Það er ekki sjálfgefið að kemistrían smelli en í þessu tilfelli gerði hún það. Þá verður auðveldara að skapa ástarsenur og spennu sem áhorfendur upplifa sem trúverðugar.“

Hvernig nálgaðist þú að túlka Önnu, sem bæði er vísindamaður og móðir í erfiðu sambandi þar sem margar togstreitur krauma innra með henni?
„Þegar ég las bókina og handritið fannst mér í fyrstu að ég ætti að standa með hjónabandi Önnu og Kristins. Sjálf hef ég verið í 25 ára hjónabandi og trúi á slíkt samband. En þegar við byrjuðum að taka senurnar með Tómasi, persónu Pilou, upplifði ég hversu mikið frelsi og gleði Anna fann með honum. Hún gat slakað á og verið hún sjálf. Það er ekki Kristni, leiknum af Jóhanni Jóhannessyni, að kenna að hún upplifir sig fasta. Hún tekur einfaldlega ekki ábyrgð á eigin hamingju. Þetta er í raun þroskasaga Önnu. Hún lærir að tengjast eigin tilfinningalífi, treysta innsæi sínu og hætta að fela sig á bak við tölur og staðreyndir. Hún er vísindamaður en neyðist til að horfast í augu við þær tilfinningar sem hún hefur lengi reynt að bæla.“

Hvað fannst þér áhugaverðast við að túlka þennan innri ágreining hennar?
„Það sem kom mér á óvart var að mér fannst ég skilja hana og ákvarðanir hennar betur. Ég fékk meira umburðarlyndi fyrir því sem hún gerir og fannst hún í raun verða að gera það sem hún gerði. Þetta var krefjandi ferli sem var mjög þroskandi fyrir mig.“

Hluti af tökunum fór fram á stórbrotnum stöðum eins og Reykjanesvita og Fagradalsfjalli. Hvernig hafði náttúran áhrif á leikinn þinn og upplifun?
„Náttúran spilar gífurlega stórt hlutverk í myndinni. Við fórum til dæmis í þyrluferð yfir eldgosið ári áður en aðaltökur hófust. Ég sat í opinni þyrlu með fæturna dinglandi út úr og hélt að ég myndi deyja, ég var svo hrædd! (hlær) En á sama tíma var þetta ótrúlega magnað. Það var gaman að sjá landið úr lágflugi, gígana og hvernig Reykjanesskaginn hefur mótast. Þetta var algjörlega ógleymanleg upplifun.

Í tökunum sjálfum var mikil einbeiting og agi. Allt þurfti að ganga upp á knöppum tíma. Það var mikill fókus á setti, allir, hvort sem það voru leikarar eða tæknifólk, stilltu sig inn á að segja þessa sögu og gera sitt besta. Það gerði ferlið ótrúlega gjöfult og skemmtilegt fyrir mig.“

Heldurðu að þessi upplifun hafi haft áhrif á leik þinn?
„Já, algjörlega. Allt sem maður upplifir fer inn í ferlið. Þegar ég er að vinna með karakter reyni ég að sjá hlutina með hans augum. Í þessu tilfelli fann ég sterkt fyrir hlið Önnu sem náttúruunnanda. Hún elskar náttúruna en er samt föst í þessu glerbúrinu, húsinu við vatnið. Í grunninn er hún náttúrubarn og það var gaman að kanna þá hlið hennar.“

Hvort voru það innri fjölskylduátökin eða vísindahlutinn sem var áhugaverðast fyrir þig að túlka?
„Það eru alltaf persónusögurnar sem heilla mig mest. Við lesum bækur, horfum á bíó og förum í leikhús til að sjá manneskjur í aðstæðum og spegla okkur í þeim. Þessi saga var í grunninn mjög áhugaverð. Mér fannst hún þroska mig sem manneskju. Ég lærði að skilja Önnu og ákvarðanir hennar, jafnvel þegar ég var ekki sammála þeim. Það kom mér á óvart hvað ég fékk aukið umburðarlyndi fyrir því sem hún gerir.“

Fékkstu að hitta jarðfræðinga til að undirbúa þig fyrir hlutverk vísindamanns?
„Ég hitti enga beint en horfði á mörg viðtöl við íslenska jarðfræðinga. Svo horfði ég á heimildarmyndina Fire of Love um frönsk hjón sem voru jarðfræðingar og lifðu fyrir eldgos. Sú mynd var mjög mögnuð. Ég dustaði líka rykið af jarðfræðibókum, keypti mér nokkrar og rifjaði upp það sem ég hafði lært í menntaskóla. Ég vildi vita hvað ég væri að tala um, fá innsýn í fræðin þó að áherslan væri auðvitað á söguna sjálfa.“

Myndin notar mikið af practical effects, eins og öskufalli og sprengingum. Hvernig var að leika við slíkar aðstæður?
„Það breytir miklu að vera í raunverulegu öskuskýi með risastórar vindvélar og menn á kantinum að dreifa ösku og reyk. Augun mín urðu stokkbólgin og þetta var rosalega erfitt. En um leið var þetta ótrúlega gaman. Ég hugsaði bara: mig langar að gera fleiri svona myndir! Sem krakki elskaði ég Indiana Jones, Star Wars og allar ævintýramyndir. Ég elska að vera í líkamlegum aðstæðum, berjast og takast á við ævintýri.“

Var eitthvað atriði sem reyndist sérstaklega krefjandi?
„Öskuskýið var erfitt, það var rosalegur dagur. Lokadagurinn var líka mjög krefjandi, senur sem báru mikinn þunga. En ég er ekki method-leikari. Ég fer ekki í raunverulegt uppnám, þó ég geti grátið eða sýnt sterkar tilfinningar. Þegar leikstjórinn segir ‘cut’ er ég bara góð. Það sem stendur þó upp úr fyrir mig er hvað þetta var stórt faglegt ævintýri. Samspilið við Pilou, Jóa og hina leikarana var eins og ping pong, mjög gefandi. Þetta var stærsta verkefni sem ég hef tekið þátt í.“

Áttu einhverja svipaða reynslu úr ferlinum áður?
„Já, ég man eftir því fyrir 20 árum þegar ég var standby fyrir Julia Stiles í A Little Trip to Heaven. Ég var sett í hlutverk hennar í óveðri, í nælonbuxum og leðurpilsi milli jóla og nýárs, með vind- og snjóvélum í gangi. Þá hugsaði ég: þetta er lífið! Þetta er geðveikt! Það er svo gaman að búa til ævintýri og vera hluti af því.“

Hvað vonarðu að áhorfendur taki með sér úr myndinni og þinni túlkun á Önnu?
„Ég veit það ekki. Ég vil ekki segja fólki hvernig því á að líða eða hvað það á að hugsa. Ég þoli það ekki sem áhorfandi sjálf. Ég vil fá að uppgötva hlutina sjálf. Þannig vona ég að fólk fái að tengjast sögunni á eigin forsendum og upplifa ferð Önnu út frá sinni reynslu.“

Að mati Vigdísar sameina Eldarnir hið kraftmikla afl náttúrunnar og hina viðkvæmu innri baráttu manneskjunnar. Útkoman er saga sem er á sama tíma stór í sniðum og náin í tilfinningum, og með leikgleði, einlægni og krafti íslenskrar náttúru lofar hún eftirminnilegri bíóupplifun.

Eldarnir (2025)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7.9

Anna Arnardóttir, einn helsti eldfjallafræðingur Íslands, stendur frammi fyrir tvennum hamförum: eldgosi sem ógnar öryggi höfuðborgarbúa og ástarsambandi sem gæti eyðilagt hjónaband hennar....