Rami Malek snýr aftur í myndinni The Amateur

Nýjasta kvikmynd Rami Malek, The Amateur, er óhefðbundin hasarmynd þar sem stærðfræði og hugvit spila stórt hlutverk.

Stærðfræði, morð og CIA leyniþjónustumaður

Rami Malek, m.a. þekktur fyrir leik sinn í þáttaseríunni Mr. Robot og sem goðsagnakenndi söngvarinn Freddy Mercury í myndinni Bohemian Rapsody, leikur aðalhlutverkið í myndinni The Amateur, mynd sem sameinar dulkóðun, hefndarþrá og klassískan „underdog“ söguþráð í einni kröftugri spennumynd.

Í The Amateur fer Malek með hlutverk Charles Heller, gagnagreinanda hjá bandarísku leyniþjónustunni CIA. Hann er tölvunörd sem heldur sig venjulega við skjáinn í vinnunni, þar til örlagarík árás breytir öllu.

Í stað þess að fylla út skýrslur og leyfa „fagfólkinu“ að sjá um málið, ákveður Heller að taka lögin í eigin hendur einfaldlega vegna þess að hann trúir því sjálfur að hann sé nógu klár til að nýta eigið hugvit (og ansi flókna stærðfræði) til að fella óvininn.

Heller er ekki bara gagnasérfræðingur heldur býr hann yfir þeim hæfileikum sem þarf til að brjóta kóða, afhjúpa samsæri og ná fram réttlæti, sem hann ætlar sér að gera, sama hvað kostar.

Einn aðdáandi myndarinnar skrifaði á spaugilegan hátt í kommentakerfi: „Sem kerfisstjóri er ég loksins viðurkenndur sem hetja, sem við tölvufólk augljóslega erum.“

Óvenjulegur hasartryllir

Það sem gerir The Amateur frábrugðna hefðbundnum hasarmyndum er hvernig hún víkur frá týpískri, sprengjukenndri hefndarsögu yfir í vitsmunalega spennusögu. Bílaeltingaleikir og áhættuatriði eru vissulega enn á sínum stað en einnig er kafað dýpra inn í heim leyniþjónustunnar þar sem hvert skref er úthugsað, hvert smáatriði skiptir máli og stærðfræðiformúlur geta jafnvel orðið að banvænum vopnum.

Mannleg hetja

Ferðalag Hellers er bæði andleg og líkamleg þrautaganga. Sálfræðitryllir, kapphlaup við tímann og ferskur blær í heimi njósnamynda. Hægt er að ímynda sér blöndu af myndunum Bourne Identity (Matt Damon) og The Imitation Game (Benedict Cumberbatch) með hefndarþrá sem hreyfiafl fyrir söguþráðinn.

Samkvæmt gagnrýnendum er frammistaða Malek marglaga þar sem viðkvæmni Heller gerir hann mannlegri og vegferð karaktersins, frá greiningarsérfræðingi í aðgerðasinnaða hetju, skapar grípandi og skemmtilega persónu.

Leikararnir Laurence Fishburne (The Matrix, CSI) og Holt McCallany (Mindhunter, Fight Club) eru meðal aukaleikarana í myndinni.

The Amateur er frumsýnd á morgun þann 10. apríl 2025.

The Amateur (2025)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.7
Rotten tomatoes einkunn 61%

Bráðsnjall en einrænn dulmálssérfræðingur hjá leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, tekur málin í eigin hendur þegar yfirmenn hans halda að sér höndum, eftir að eiginkona hans lætur lífið í hryðjuverkaárás í Lundúnum. ...