19 þúsund sáu Minecraft um helgina

Kvikmyndin A Minecraft Movie, sem óhætt er að segja að margir hafi beðið eftir með mikilli eftirvæntingu, var loksins frumsýnd í kvikmyndahúsum um helgina og er óhætt að segja að hún hafi slegið í gegn.

Samkvæmt bíóaðsóknarlistanum þá hafa nú næstum 19 þúsund manns séð myndina, en Minecraft er mest seldi tölvuleikur í heimi og á sér fjölda aðdáenda hér á landi.

Tekjur myndarinnar um helgina námu 33 milljónum króna sem þýðir að Minecraft er önnur stærsta frumsýning allra tíma á Íslandi á eftir Spider Man: No way home frá árinu 2021.

Vinsæl í Bandaríkjunum

A Minecraft Movie hefur sömuleiðis gert frábæra hluti erlendis. Í Bandaríkjunum voru tekjurnar 157 milljónir Bandaríkjadala og er það stærsta frumsýning á mynd sem byggð er á tölvuleik frá upphafi. Skýtur hún þar með The Super Mario Bros. Movie frá árinu 2023 ref fyrir rass.

Tekjur A Minecraft Movie voru um 313 milljónir dollara á heimsvísu á frumsýningarhelginni.

Í Minecraft tölvuleiknum, sem kom fyrst út árið 2009, geta spilarar ferðast um opna, pixlaða kubbaveröld. Þar geta þeir grafið eftir auðlindum, byggt allt frá einföldum húsum upp í flókin mannvirki, búið til verkfæri, barist við skrímsli og lifað af í mismunandi umhverfi.

A Minecraft Movie er sýnd með íslensku, ensku og pólsku tali.

Sjáðu nokkrar myndir frá íslensku frumsýningunni í SAM bíóunum Egilshöll hér fyrir neðan en þarna má m.a. þekkja Gumma Kíró, Tomma Steindórs og Sólrúnu Diego.