Japanska tölvuleikjafyrirtækið Nintendo hefur tilkynnt framleiðslu á Live-action kvikmynd um hina heimsfrægu og goðsagnakenndu tölvuleikjaseríu The Legend of Zelda.
Eftir gríðarlega velgengni teiknimyndarinnar The Super Mario Bros. Movie frá Nintendo, sem halaði inn yfir 1,3 milljörðum Bandaríkjadala í miðasölutekjur, er Nintendo nú með aðra teiknimynd í bígerð um Mario auk leikinnar kvikmyndar byggð á leikjaseríunni The Legend of Zelda.
Zelda kvikmyndin er enn á frumstigi í framleiðslu en hún hefur þó nú þegar fengið leikstjóra og er áætluð frumsýning árið 2027. Myndin verður samstarf milli leikjatölvurisans Nintendo og framleiðslufyrirtækisins Sony Pictures. Shigeru Miyamoto, sem skapaði m.a. Mario leikina og Zelda seríunnar, er einn af framleiðendum kvikmyndarinnar. Annar framleiðandi er Avi Arad, sem hefur unnið að fjölda Marvel mynda.
Nintendo og Sony Pictures fjármagna myndina saman en Nintendo á meira en 50% hlut í verkefninu. Sony Pictures mun sjá um dreifingu kvikmyndarinnar á heimsvísu.
Óvissa með söguþráðinn
Hvorki Nintendo né Sony Pictures hafa opinberað söguþráðinn enn sem komið er. Hinsvegar er líklegt að myndin muni innihalda vinsælar persónur úr hinni goðsagnakenndu RPG-seríu, þar á meðal Zelda, Link og Ganondorf. The Legend of Zelda leikjaserían er þekkt fyrir ævintýralegar persónur og stórkostlegt umhverfi og verður áhugavert að sjá hvaða sögu Nintendo kýs að segja. Möguleiki er á að myndin verði bein aðlögun að einhverjum leik úr seríunni.
Stærsti munurinn á milli Zelda myndarinnar og The Super Mario Bros. Movie er að Zelda myndin verður leikin en ekki tölvuteiknuð.
Zelda myndin er nú þegar komin með frumsýningardaginn 26. mars 2027. Nintendo tilkynnti þetta í gegnum nýja Nintendo Today smáforritið. Hún kemur þá út ári á eftir framhaldsmyndinni The Super Mario Bros Movie 2, sem verður frumsýnd í apríl 2026.
Hugleiðingar á leikurum
Enn sem komið er hafa engar formlegar tilkynningar verið gefnar út um leikara í myndinni. Hins vegar hafa aðdáendur nefnt að leikkonan Hunter Schafer, þekkt úr Euphoria, gæti verið sterkur kostur fyrir hlutverk Zeldu. Schafer hefur tekið eftir þessari umræðu og sagði: „Það væri svo geggjað. Persónulega elska ég leikinn. Ég spilaði hann sem barn og ég spila hann enn í dag.“
Leikarinn Haley Joel Osment hefur einnig lýst áhuga á að leika Link. Osment sagðist hafa verið aðdáandi seríunnar síðan í æsku og væri spenntur að fá tækifæri til að leika persónuna. Hann grínaðist með að hann gæti verið of gamall, þar sem hann er 37 ára, en bætti við: „Þeir vita að ég hef áhuga!“
Einnig hefur skapari persónunnar Tingle lýst því yfir að hann vonist til að sjá karakterinn í myndinni. Hann hefur jafnframt nefnt að Masi Oka, þekktur úr Heroes þáttunum, væri góður kostur í hlutverkið.
Hver leikstýrir Zelda ?
Leikstjóri hinna væntanlegu Zelda kvikmyndar verður Wes Ball, sem er þekktur fyrir vinnu sína við kvikmyndaseríurnar Maze Runner og Kingdom of the Planet of the Apes. Kvikmyndagerðarmaðurinn stefnir á að fanga lifandi töfra Hayao Miyazaki stílsins (Leikstjóri m.a. Spirited away og Princess Mononoke) í Live-action útgáfu af The Legend of Zelda mynd og vill að áhorfendur gleymi sér algjörlega í myndinni. Hvað það nákvæmlega þýðir er þó enn óljóst.
Ball hefur áður gefið í skyn hvernig hann sér fyrir sér Zelda myndina. „Ég er með geggjaða hugmynd,“ sagði hann. „Ég hef hugsað um þetta í ótrúlega langan tíma, hversu mögnuð Zelda kvikmynd gæti orðið. Ég vil uppfylla stærstu óskir aðdáenda. Ég veit að þessi sería skiptir fólk miklu máli og ég vil að þetta verði alvöru kvikmynd.“
Heimild: https://www.gamespot.com/gallery/the-legend-of-zelda-movie-release-date-trailer-story/2900-6252/#1