Nolan með frjálsar hendur við gerð The Odyssey

Hinn heimsfrægi breski kvikmyndaleikstjóri Christopher Nolan ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Nú stendur hann að gerð myndarinnar The Odyssey sem mun innihalda stóran hóp leikara og meðal þeirra eru sum af stærstu nöfnunum í Hollywood.

Einn þeirra, John Leguizamo, segir að Nolan hagræði framleiðslunni þannig að þeir sem koma að gerð kvikmyndarinnar upplifi hana sem sjálfstæða kvikmyndagerð þrátt fyrir að um risastóra framleiðslu sé að ræða.

Talið er að framleiðslukostnaður The Odyssey verði 250 milljónir Bandaríkjadala, eða rúmlega 33 milljarðar íslenskra króna. Það er u.þ.b. 6 milljörðum króna meira en þarsíðasta mynd hans, Tenet, kostaði.

Þrátt fyrir svona gríðarlega háar upphæðir hefur Christopher Nolan notið þess að fá frjálsar hendur við leikstjórn og skapandi ákvarðanir án afskipta stóru kvikmyndaveranna.

The Odyssey er aðlögun á sígilda verkinu Ódysseifskviðu eftir Hómer þar sem stórleikarinn Matt Damon leikur aðalpersónuna Ósysseif og unga stjarnan Tom Holland tekst á við hlutverk Telemakkosar, sonar Penelópu, en þetta eru lykilpersónur Hómerskviðu.

Aðrir leikarar í myndinni eru Jon Bernthal, Robert Pattinson, Anne Hathaway, Zendaya, Charlize Theron, Mia Goth, Cosmo Jarvis, Elliot Page, Lupita Nyong’o, Benny Safdie og Samantha Morton.

Áætluð frumsýning á The Odyssey er í júlí á næsta ári, 2026.