Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, varð fyrstur til að segja Óskari Þór Axelssyni leikstjóra kvikmyndarinnar Napóleonsskjalanna að Arnaldur Indriðason, höfundur bókarinnar sem myndin er byggð á, væri mjög ánægður með útkomuna.
Þegar bróðir lögfræðingsins Kristínar rekst á þýskt flugvélarflak úr seinni heimstyrjöld á toppi Vatnajökuls, dragast þau bæði inn í atburðarás upp á líf og dauða, hundelt af hópi manna sem skirrist einskis við að halda áratuga gamalt leyndarmál....
Gunnar B. Guðbjörnsson og Kristján Loðmfjörð fengu Edduverðlaun fyrir klippingu. Davíð Jón Ögmundsson, Dragos Vilcu, Árni Gestur Sigfússon og Rob Tasker fengu Edduverðlaun fyrir brellur og Heimir Sverrisson hlaut Edduverðlaun fyrir leikmynd.
„Ég og Arnaldur sátum sitthvoru megin við forsetann á forsýningu myndarinnar. Eftir að sýningu lauk fór ég að tala við Guðna og hann færði mér þær fréttir að bókarhöfundur væri mjög ánægður. Ekki lýgur forsetinn,“ segir Óskar Þór Axelsson í samtali við Kvikmyndir.is og brosir.
Þar næst heyrði Óskar í Arnaldi sjálfum sem var „þrælsáttur“ eins og Óskar orðar það. „Hann var mjög ánægður með þetta, eins og forsetinn hafði flutt mér fregnir af. Arnaldur hafði verið búinn að sjá myndina hráa, þ.e. án hljóðs og tæknibrellna og slíks. Honum fannst mjög gaman að sjá kvikmyndina tilbúna með öllu.“
Heimsótti tökustað
Óskar hafði Arnald með í ráðum við gerð myndarinnar. „Hann kom m.a. í heimsókn á tökustað en lét þá yfirleitt lítið fyrir sér fara. Hann er ekki mikið fyrir athyglina.“
Óskar segir spurður um aðdragandann að hann nái allt aftur til 1999. „Ég las bókina um Jólin þegar hún kom út. Ég sá strax að þetta var efniviður í góða bíómynd. Þó ég væri frekar blautur á bakvið eyrun á þessum tíma, hafandi gert bara stuttmyndir og auglýsingar, var ég mjög kokhraustur. Ég hafði samband beint við útgefandann og falaðist eftir kvikmyndaréttinum,“ segir Óskar og hlær.
Ekkert varð af kaupunum því rétturinn var þá þegar genginn út. „Það voru margir um hituna. Þetta er þannig bók. En svo varð ekki meira úr málinu á þessum tíma.“
Óskar segir að hjólin hafi aftur byrjað að snúast fyrir söguna árið 2009 – 2010 þegar bókin kom út erlendis. „Hún sló í gegn. Þetta er að ég held söluhæsta bók Arnaldar erlendis.“
Sagði já í hvelli
Um 2011 – 2012 kaupa þýskir framleiðendur kvikmyndaréttinn enda nýtur Arnaldur mikilla vinsælda í landinu. Óskar segir að þeir hafi þróað hugmyndina í nokkur ár, prófað ýmislegt og rekist á hina og þessa veggi. Að lokum koma þeir að máli við Saga Film eins og Óskar útskýrir. Þannig ratar myndin aftur til leikstjórans. „Það var fyrir svona tveimur og hálfu ári síðan. Ég sagði já í einum hvelli og einhenti mér í verkefnið. Ákvörðunin var löngu komin. Það eru tuttugu ár síðan hún var tekin,“ segir Óskar og brosir.
Leikstjórinn, sem hefur mikla reynslu af því að kvikmynda vinsælar bækur, segir að það sé ekki alltaf auðvelt að mynda bækur. Oft þurfi að taka erfiðar ákvarðanir. „En þarna þegar ég kem að málunum er handritið klárt og búið að taka ákvarðanir sem mér fannst strax mjög sniðugar. Ég sá um leið að það lá mikil hugsun að baki því. Ég fékk rosalega góða tilfinningu fyrir verkefninu.“
Hjálpar upp á aðsókn
Áður hefur Óskar gert myndirnar Svartur á leik og Ég man þig. Þær voru gerðar eftir glæpasögum Stefáns Mána og Yrsu Sigurðardóttur. Hann segir að það geti oft hjálpað upp á aðsókn að kvikmynda bækur því þá er strax stór hópur lesenda sem þekkir söguna.
Byggð á sakamálasögu Stefáns Mána og gerist á þeim ótryggu tímum þegar undirheimar Reykjavikur eru að stækka og verða hættulegri. Við fylgjumst með upprisu og falli í hópi karaktera; Stebba, venjulegum manni sem flækist inn í eiturlyfjaheiminn í gegnum vin frá barnæsku, ...
Tilnefnd til "Tiger Awards".
Ungt fólk sem er að gera upp hús á Hesteyri um miðjan vetur fer að gruna að þau séu ekki einu gestirnir í þessu eyðiþorpi. Á Ísafirði dregst nýi geðlæknirinn í bænum inní rannsókn á sjálfsmorði eldri konu, en svo virðist sem hún hafi verið heltekin af syni hans sem hvarf...
Óskar segir að íslensk skáldverk séu vannýtt auðlind. „Við erum sagnaþjóð sem á marga frábæra höfunda. Afhverjum erum við ekki að horfa meira til þessara vinsælu höfunda sem allir eru að lesa.“
Óskar segir það að einhverju leiti vera skyldu kvikmyndagerðarmanna að fylgja þessu eftir. Efniviðurinn sé það góður
Hann segir að það hafi verið gaman að vinna með öllum þremur rithöfundum, Arnaldi, Stefáni og Yrsu. „Þau eru öll að láta barnið sitt af hendi ef svo má segja. Ég hef alltaf viljað hafa höfundana með í ferlinu. Þeir þurfa að vera sáttir við útkomuna.“
Leikstjórinn segir að Arnaldur hafi ekkert verið viðriðinn undirbúning myndarinnar fyrr en Óskar var fenginn til að stýra myndinni. „Ég fór strax að hitta hann. Við áttum mjög gott spjall. Ég vildi strax í upphafi fá blessun hans á því hvernig ég sæi þetta fyrir mér. Ef hann hefði haft aðra sýn þá hefði ég líklega ekki viljað taka þetta að mér.“
Ein ástæða þess að Óskari fannst mikilvægt að heyra í Arnaldi er að hann er mikill kvikmyndaáhugamaður. Hann skrifaði til dæmis kvikmyndagagnrýni í Morgunblaðið um árabil áður enn hann hóf sinn rithöfundarferil. „Það er rosalega gaman að tala við hann um bíómyndir. Við erum með svipaðan smekk. Það var áhugavert að heyra hann sem höfund segja mér að hann vildi ekki hafa of mikið af samtölum í bíómyndum. Frekar að keyra söguna áfram og nota myndmálið.“
Yrsa vildi ekki vera með
Arnaldur fékk svo líka að sögn Óskars að lesa handritið og fylgjast með þróun þess. „Hann var ekkert mikið að skipta sér af en kom með almennar athugasemdir og tók þátt í hugarflugi. Svo var gott að geta sýnt honum klipp þegar sú vinna hófst. Ég held að honum hafi þótt gaman af þessu.“
Óskar segi að það sé ekki sjálfgefið að höfundar vilji taka þátt í ferli bíómyndar. „Yrsa hafði til dæmis engan áhuga á því. Hún sagði að þetta væri mitt verkefni en hlakkaði til að sjá myndina í bíó.“
Stefán Máni tók töluvert mikinn þátt í gerð Svartur á leik að sögn Óskars. „Hann las yfir handritið og ég hitti hann oft í ferlinu.“
Óskar segir að Napóleonsskjölin sé dýrasta leikna mynd Íslandssögunnar. „Það kemur svo mikið fé frá Þýskalandi. Arnaldur er stjarna þar.
Í 200 sölum í Þýskalandi
Napóleonsskjölin fer í bíó í Þýskalandi í mars nk. „Hún verður frumsýnd í 200 sölum. Það segir sína sögu um vinsældir Arnalds. Þegar hún er búin í bíó þar fer hún til sýninga á ZDF sjónvarpsstöðinni þýsku sem setti helling af peningum í verkefnið.“
Einnig er búið að selja kvikmyndina til Japans og fleiri svæða. „Sumir hafa verið að hinkra eftir að myndin yrði tilbúin.“
Gerð hefur verið ein önnur kvikmynd eftir bók Arnaldar Indriðasonar, Mýrinni. Spurður hvort Napóleonsskjölin séu áþekk henni, segir Óskar svo ekki vera. „Napóleonsskjölin skera sig úr höfundarverki Arnaldar með að vera meiri ævintýra-spennusaga. Hann var innblásinn af sögum Alistair Maclean við skrifin. Þetta er allt önnur tegund af mynd en Mýrin. Það er smá húmor en líka meira fjör. Mýrin er meira þessi skandinavíska glæpasaga. Yfirbragðið er töluvert annað.“
Mýrin er byggð á samnefndri metsölubók Arnaldar Indriðasonar. Rannsóknarlögreglumaðurinn Erlendur er kallaður á vettvang glæps í kjallaraíbúð í Norðurmýrinni. Við fyrstu sýn virðist sem um sé að ræða tilhæfulausa árás á roskinn ógæfumann, en ekki er allt sem sýnist. ...
Óskar kveðst vera verulega spenntur að sjá hvernig viðtökur kvikmyndin fær í bíó. „Þetta er búinn að vera snarpur ferill. Við byrjuðum að taka myndina daginn sem stríðið í Úkraínu hófst, 24. febrúar á síðasta ári. Tæpt eitt ár er skammur tökutími fyrir jafn stóra og flókna kvikmynd. Það er samt áhugavert að gera þetta með þessum hætti, að klára myndina og fara svo með hana beint í bíó,“ segir Óskar og brosir.
Spurður um næstu verkefni segir Óskar að tvær Svartur á leik kvikmyndir séu í pípunum. „Það liggur ekki fyrir hvaða mynd ég leikstýri næst, ég er að skoða verkefni erlendis t.d. Þar hef ég leikstýrt sjónvarpsþáttaröðum. Næst á dagskrá eru handritsskrif. Í haust var Svartur á leik sýnd í bíó í tilefni af tíu ára afmæli kvikmyndarinnar. Þá var tilkynnt um gerð forleiks og eftirleiks. Forleikurinn gerist á áttunda áratug síðustu aldar og fram á þann níunda. Undirheimarnir í Reykjavík verða aðalpersónan. Við viljum segja sögu undirheimanna, uppvaxtarsögu (e. Coming of Age) þeirra. Hvernig þeir fóru frá því að vera lítill og einangaður markaður í að vera mun stærri og með miklu meiri peningum í umferð. Við lýsum byrjuninni, fyrstu fíkniefnadómunum og fyrstu glæpunum. Þriðja myndin mun svo gerast í nútímanum. Hún segir frá uppgangi erlendra glæpagengja og því hvernig magnið í innflutningi jókst og framleiðsla innanlands færðist íaukana,“ segir Óskar að lokum.