Gríðarlega sterk viðbrögð

Þrjár spennandi en nokkuð ólíkar myndir voru frumsýndar í bíóhúsum landsins gær, föstudaginn 1. apríl. Ein myndanna er íslensk sem er eins og alltaf sérstakt fagnaðarefni, Skjálfti eftir Tinnu Hrafnsdóttir.

Ólíkindatólið Jared Leto er svo mættur í líki Dr. Michael Morbius, í svakalegum Sony Marvel ofurhetjutrylli. Og loks, en svo sannarlega ekki síst, er það Sonic The Hedgehog 2, þar sem Jim Carrey sýnir listir sínar meðal annars.

Hlakkar til að sýna heima

Tinna Hrafnsdóttir segir í samtali við Morgunblaðið að Skjálfti hafi fengið gríðarlega sterk viðbrögð erlendis, bæði frá áhorfendum og gagnrýnendum. „Ég hlakka hins vegar mest til að sýna myndina hér heima og finnst ég í raun fyrst núna vera að frumsýna í alvörunni,“ segir Tinna Hrafnsdóttir í samtalinu.

Myndin er byggð á skáldsögunni Stóri skjálfti eftir Auði Jónsdóttur og fjallar um Sögu sem eftir
heiftarlegt flogakast á Klambratúni man lítið sem ekkert hvað gerðist í aðdraganda þess. Í leit hennar að upplýsingum um sjálfa sig og sína nánustu fara minningar sem Saga bældi niður sem barn að koma upp á yfirborðið. Minningar sem neyða hana til að horfast í augu við sjálfa sig og fjölskyldu sína sem tekist hafði að þegja ógnvænlegt leyndarmál í hel.

Með hlutverk Sögu fer Aníta Briem, en Edda Björgvinsdóttir og Jóhann Sigurðsson leika
foreldra hennar, Tinna Hrafnsdóttir eldri systur hennar, Benjamín Árni Daðason son hennar,
Sveinn Geirsson barnsföður Sögu og Bergur Ebbi Benediktsson nágranna sem nefnist Óskar.

Byggð upp eins og rannsóknarlögreglusaga

Í Morgunblaðsviðtalinu kemur fram að bókin sé byggð upp eins og rannsóknarlögreglusaga þar sem þú ert smám saman að komast að því hvað gerðist hjá þessari fjölskyldu. Tinna segir að sér hafi fundist það vera eitthvað sem hún gæti nýtt sér í handritaskrifunum, þ.e. að byggja myndina upp eins og rannsóknarsögu, en í stað þess að rannsaka glæp þá er verið að rannsaka sjálfið. „Óhugnaðurinn er eitthvað sem býr innra með Sögu vegna þess að þarna er aðalpersónan að kljást við bældar minningar sem eru að brjótast fram. Á meðan Saga er að komast að því hver hún er og hvað hefur gerst fannst mér mikilvægt að áhorfendur hefðu ekki meiri upplýsingar en hún. Áhorfandinn er þannig í sömu sporum og
hún og þarf að púsla hlutunum saman, sem viðheldur spennu og heldur þeim á tánum,“ segir Tinna
í samtalinu.

Leikur ef Dolly Parton hringir

Hollywood goðsögnin Jim Carrey, 60 ára ,sem fer með hlutverk Dr. Ivo Robotnik í Sonic the Hedgehog 2, segist í samtali við Access Hollywood helst vilja taka sér pásu frá leiklist nú eftir að hafa leikið í myndinni. Hann hefur áhuga á að taka því aðeins rólega, svo lengi sem söngkonan Dolly Parton hringi ekki og biðji hann um að leika í ævisögulegri mynd um sig. Dolly hefur áður sagt að hún gæti séð Carrey fyrir sér í hlutverki fyrrum félaga síns Porter Wagoner. Carrey virðist vera til í það.

„Ef englarnir koma niður af himnum með gullslegið handrit sem mér finnst vera mikilvægt að fólk fái að berja augum, þá gæti verið að ég héldi áfram að leika og frestaði pásunni,“ sagði hann við Access Hollywood.

Ég er nóg

„Ég fíla það að vera í ró og næði og ég elska að mála málverk og andlega lífið er mér mikilvægt. Ég segi nokkuð sem Hollywood stjörnur segja sjaldnast eða aldrei – Ég á nóg. Ég hef gert nóg. Ég er nóg.“

Opinber söguþráður er þessi: Eftir að hafa komið sér vel fyrir í Green Hills, þá er Sonic tilbúinn í meira frelsi og Tom og Maddie samþykkja að leyfa honum að vera einum heima þegar þau fara í sumarfrí. En um leið og þau eru horfin út um dyrnar birtist Dr. Robotnik á ný, nú með nýjum félaga, Knuckles, í leit að gimsteini sem getur bæði byggt og eyðilagt heilu menningarsamfélögin. Sonic fer með félaga sínum Tails, í leit að gimsteininum áður en hann kemst í rangar hendur. ..

Alvarlegur blóðsjúkdómur

Sony Marvel heimurinn, sem meðal annars inniheldur Spider-Man myndir Tom Holland og Venom, heldur áfram göngu sinni í nýjustu myndinni, Morbius. Þar leikur Jared Leto Dr. Michael Morbius, sem breytist í vampíru þegar hann leitar að lækningu við alvarlegum blóðsjúkdómi sem hann er haldinn.

Til útskýringar þá var persónan Morbius, sem er einnig kallaður „lifandi vampíran“, sköpuð af Roy Thomas og Gil Kane og kom fyrst fram í Spider-Man teiknimyndasögu árið 1971. Fyrst um sinn var hann einn af hryllings-þorpurunum í Spider-Man sögunum, en hann hefur þróast út í að vera einskonar andhetja, sem býr yfir ákveðnum göllum. Líkt og Drakúla og aðrar þekktar vampírur fær Morbius ofurmannlegan styrk, getuna til að lækna fólk og jafnvel fljúga.

Auk Leto fara þau Matt Smith, Adria Arjona, Jared Harris, Al Madrigal og Tyrese Gibson með stór hlutverk.

Jared Leto er Morbius sem breytist í vampíru.

Á meðal leikara í myndinni er Doctor Who leikarinn Matt Smith sem leikur Milo.

Leikarinn segir aðspurður í samtali við vefritið Screen Rant, um það hve mörgum hlutverkum í ofurhetjumyndum hann hafi hafnað og afhverju hann hafi nú ákveðið að leika í Morbius að hann hafi ekki hafnað mörgum hlutverkum. „Ekki svo mörgum, menn eru ekkert endilega að leita til mín.“

Fljúga og drepa fólk

„Ég hef alltaf verið gagntekinn af vampírumyndum, satt að segja, og því dulúðlega við þær. Sú staðreynd

Morbius tekur í hnakkadrambið á Milo.

að þetta er ofurhetjuskrímsli, gerði mig mjög spenntan. Leikstjórinn er frábær og leikhópurinn sömuleiðis. Ég var mjög áhugasamur um hugmyndina að geta flogið og drepið fólk. Allskonar svoleiðis,“ segir Smith.

Smith segist þekkja vel til vampíruheimsins. „Ég horfði á frábærar vampírumyndir eins og The Lost Boys og Interview with a Vampire.“

Access Hollywood hrósar Smith fyrir hvernig hann nálgast persónuna en Smith gerir lítið úr því og segist bara hafa unnið með það sem handritið færði honum, en enginn sérstök rannsóknarvinna hafi farið fram.

„Ég áttaði mig ekki á því hvað persónan býr yfir ríkri sögu.“