Spielberg og Clint Eastwood

Fyrirsögnin er dálítið villandi. Það sem átt er við er að leikstjórinn Steven Spielberg hringdi á dögunum í Damon Albarn og ræddi við hann um hugsanlega teiknimynd í fullri lengd, sem gerð yrði af Dreamworks kvikmyndaverinu, þar sem notast yrði við grunnhugmyndina á bak við Clint Eastwood myndbandið með Gorillaz, en svo nefnist hip-hop hljómsveit Albarns. Myndbandið er afskaplega vel gert og vel hægt að vinna meira með það, en því var leikstýrt af Jamie Hewlett, sem er maðurinn á bak við teiknimyndasöguna um Tank Girl (þeir sem eru minnugir muna eflaust eftir lélegri samnefndri kvikmynd gerðri eftir sögunum, en hún skartaði Lori Petty í aðalhlutverki).