Sam Rockwell þykir ágætur dansari, en hann ku líka vera ágætur söngvari. Og ef allt fer vel, þá gæti þetta tvennt nýst honum vel í nýrri mynd sem hann er orðaður við, ævisögu kántrísöngvarans Merle Haggards.
Robin Bissell, sem leikstýrði Rockwell í The Best of Enemies, mun leikstýra, og mun einnig laga handritið að hvíta tjaldinu, ásamt ekkju Haggards, Theresu, upp úr æviminningunum Sing Me Back Home.
Þó að Haggard hafi átt langan og farsælan feril, þá mun myndin aðallega fjalla um erfiðan en mikilvægan part í lífi hans. Á unglingsárunum strauk hann að heiman og hnuplaði. Hann var inn og út úr fangelsi, sem endaði með því að hann var sendur í hið alræmda San Quentin fangelsi, þegar hann hafði náð fullorðinsaldri. Þar náði hann að snúa lífi sínu til betri vegar, og mun myndin segja frá því meðal annars að hann var einn af þeim sem horfðu á kántrígoðsögnina Johnny Cash halda fræga tónleika sína í San Quentin, en tónleikarnir komu við sögu í ævisögulegri kvikmynd um Johnny Cash.
Eftir að hann slapp úr grjótinu fór Haggard að spila á klúbbum, og skrifaði svo undir samning við Capital Records í Los Angeles, og varð síðar ein stærsta kántrístjarna sögunnar.
Í myndinni verður einnig fjallað um ástarsamband hans og Bonnie Owens, sem söng í hljómsveit hans, og varð síðar fyrsta eiginkona hans.
Amazon hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn að bókinni og vonast nú til að Rockwell skrifi undir samning, að því er Deadline greinir frá.