Farsælir Smáfuglar

Smáfuglar (2 Birds) nýjasta stuttmynd Rúnars Rúnarssonar hefur undanfarnar vikur verið sigursæl á kvikmyndahátíðum. Nú um helgina varð hún hlutskörpust stuttmynda á kvikmyndahátíðinni í Edinborg þar sem keppt var um tilnefningu til verðlaunanna “Besta evrópska stuttmyndin 2008”. Sú keppni fer fram í desember nk.

Edinborgarhátíðin er meðal virtustu kvikmyndahátíðanna á heimsvísu og var hún nú haldin í 62. sinn. Í síðustu viku hlaut Smáfuglar Canal+ verðlaunin á Cinema Jove Internacional Festival í Valencia á Spáni.

Fyrir hálfum mánuði vann hún svo til verðlauna á Alþjóðlegu Kvikmyndahátíðinni í St Pétursborg. Dómnefnd hátíðarinnar veitti Smáfuglum “Centaur”, aðalverðlaun hátíðarinnar í flokki leikinna mynda.

Smáfuglar eru önnur mynd Rúnars í þríleik um ástina. Sú fyrsta, Síðasti bærinn, fór sigurför um heiminn og vann hátt á þriðja tug alþjóðlegra verðlauna og var meðal annar  tilnefnd til Óskarsverðlauna 2006.

Smáfuglar er hinsvegar nýkomin frá Cannes þar sem myndin var tilnefnd til
Gullpálmans eftirsótta.
Einnig liggur fyrir Smáfuglum þáttaka á alþjóðlegum kvikmyndahátiðum í London,Melbourne og á Ítalíu.

Framleiðendur myndarinnar, Zik Zak kvikmyndir, standa nú í samningaviðræðum
um myndina við bandaríska dreifingaraðila og sjónvarpsstöðvar víðar um lönd. Jafnframt hafa borist fyrirspurnir frá kvikmyndahátíðum um allan heim og eru aðstandendur Smáfugla vissulega ánægðir með þessi frábæru viðbrögð.

Smáfuglar fjallar um 14 ára drenginn Óla sem býr í sjávarþorpi úti á
landi og mikilvæg tímamót í lífi hans. Myndin spannar hálfan dag, daginn sem hann
tapar sakleysi æskunnar og verður að manni. Smáfuglar er lítil ástarsaga með undirtón.

Leikstjórinn Rúnar Rúnarsson stundar nám við hinn virta Danska Kvikmyndaskóla í Kaupmannahöfn. Hann segir þetta um myndina: “Þær persónur sem heilla mig og enda gjarnan í sögum mínum eru fólk sem er statt á vendipunkti í sínu lífi. Vegna ytri aðstæðna sem þær geta engan veginn stjórnað eða , og hafa takmarkaða ábyrgð á stöðu sinni , en eru nauðbeygðar til að taka val.Geng ég mikið upp í lágstemmdum leikstíl og réttu leikara vali.Því var mikil vinna lögð í að finna réttu leikarana fyrir myndina. Yfir hundrað unglingar komu í áheyrnaprufu fyrir fjögur stærstu hlutverkinn í myndinni.”

Frumsaminn tónlist var í höndum Kjartans Sveinssonar úr Sigur Rós og hafði hann jafnframt umsjón með annari tónlist í myndinni sem er öll Íslensk. Má þar nefna Bubba, SlowBlow, Singapor Sling og Ham. Upptökur fóru fram síðasta sumar og stóðu yfir Verslunnarmannahelgina. Aðal tökurnar áttu sér stað á gamla varnarliðssvæðinu og nágrenni þess.

Með helstu hlutverk fara Atli Óskar Fjalarsson , Hera Hilmarsdóttir, Sigurður
Jakob Helgason og Þórunn Jakobsdóttir. Í öðrum hlutverkum eru
Gísli Örn Garðarsson, Víkingur Kristjánsson og Ómar Swarez úr
Quarashi.

Myndin er studd af Kvikmyndamiðstöð Íslands

http://smafuglar.blogspot.com/ heimasíða myndarinnar
www.zikzak.is