Hinn bráðfyndni Dana Carvey ( Wayne’s World ) og leikarinn James Brolin eru að fara að leika saman í myndinni Master Of Disguise. Verður henni leikstýrt af Perry Andelin Blake sem er að leikstýra sinni fyrstu mynd, og fjallar um mann (Carvey) sem kemst að því að hann rekur ættir sínar til heimsfrægra meistara dulargerva. Verður hann að nýta þessa nýfundnu hæfileika til þess að frelsa foreldra sína úr prísund manna sem vilja nota hæfileika þeirra til ills. Það verður gaman að sjá hvað Carvey tekst að gera úr þessu hlutverki, en hann var einn alfyndnasti maðurinn í Saturday Night Live þáttunum, þó hann sé einn af fáum sem hafi ekki tekist að gera sér nógu mikinn mat úr því eftir að hann hætti að leika í þáttunum. Er hann ennþá helst þekktur sem Garth úr Wayne´s World, en grínhæfileikar hans, og þá sérstaklega sem eftirherma, eru ótrúlegir.

