Vandað framhald

Konungsríkið Arendelle er í hættu. Drottningin Elsa og systir hennar Anna, Kristján, snjókarlinn ÓIafur og hreindýrið Sveinn halda til skógar sem er umvafinn töfrum í von um að komast að uppruna krafta Elsu. Lausnin á þeirri ráðgátu gæti varpað miklu ljósi á fortíð konungsríkisins og framtíð þess einnig.

Frozen“ (2013) reyndist vera alger gullnáma fyrir Disney og því óhjákvæmilegt að framhald myndi dúkka upp. Það kemur kannski á óvart að það hafi tekið næstum því 6 ár að skila því frá sér en greinilegt er að vandað var til verka. „Frozen II“ er að öllu leyti vönduð mynd sem bætir við söguþráðinn, dýpkar persónurnar og varpar ljósi á nokkra hluti sem fyrri myndin rétt drap á.

Það er hálfgerð nýlunda að knýja áfram ævintýramynd sem gengur fyrst og fremst út á tilfinningalegt ferðalag persóna, uppgötvun, breytingu og leiðréttingu fornra synda frekar en uppgjör milli góðs og ills í einhverri mynd. Það er þó raunin með „Frozen II“ þar sem haldið er aftur til fortíðar og sagan á bak við uppruna Arendelle, krafta Elsu og örlög foreldra þeirra systra eru þungamiðjan hér og ráða framtíð persónanna. Myndin er ansi „fullorðins“ þemalega séð en slatti af húmor fær þó að fljóta með þökk sé snjókarlinum Ólafi og hreindýrinu Sveini. Húmorinn spillir ekki fyrir aukna alvarleikanum hér og afbragðs handritið fer vel með persónur Elsu og Önnu og bætir ríkulega við þennan ævintýraheim. Það er helst að Kristján hafi lítið fyrir stafni hér en atriði hans eru aldrei leiðinleg þó þau geri ekki mikið fyrir heildarmyndina.

Augnakonfekt

Öll tæknivinna er hreint stórkostleg og myndin er sannkallað augnakonfekt. Tónlistin er alls ekki slæm heldur en nokkur tónlistaratriði hljóma vel og líta mjög vel út en erfitt er að meta hvort eitthvað lag hér nái að toppa smellinn „Let It Go“ („Þetta er nóg“) sem sló svo eftirminnilega í gegn í fyrri myndinni.

Það var búist við miklu af „Frozen II“ og hún stendur svo sannarlega fyrir sínu.

Rýnir sá myndina með íslenskri talsetningu og var hún fyrsta flokks. Meðal leikara eru Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Bergur Þór Ingólfsson, Sigurður Þór Óskarsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Telma Hrönn Sigurdórsdóttir.

Frozen II (2019)

Leikstjórar: Chris Buck og Jennifer Lee

Handrit: Jennifer Lee