Inglorious Bastards verður loks til!

Íslandsvinurinn og stuðboltinn Quentin Tarantino er gjarnan þekktur fyrir óvissu sína varðandi kvikmyndaverkefni. Stuttu eftir að Kill Bill kom út kom upp sú hugmynd að gera myndina Inglorious Bastards, en var það aðeins hugdetta. Hann talaði mikið um það og fókusaði mikið á hvaða leikarar yrðu bestir í þá mynd.

Stuttu eftir þá pælingu sagðist hann loks vilja gera myndina The Vega Brothers, sem að myndi fjalla um Vic og Vincent Vega, persónur Michael Madsen og John Travolta úr Reservoir Dogs og Pulp Fiction.

Svo leið fljótt að Grindhouse verkefninu og varð það verkefni til á mjög miklum hraða. Death Proof var eiginlega hálfgerð skyndiákvörðun Quentins, og skiptar skoðanir fólks um þá mynd benda kannski til þess að það sjáist auðveldlega.

Quentin sagði í viðtali á Cannes fyrir stuttu að næsta myndin sín yrði pottþétt Inglorious Bastards og hann sagði að sú ákvörðun væri nánast skrifuð í steini, enda er hann nýbúinn að klára fyrsta uppkastið (draft).

Hann bætti því loks við að hann vildi gera verkefnið sem fyrst og á góðum og hröðum tíma, ólíkt Kill Bill, en þær tökur fóru alveg harkalega langt eftir áætlun og bitnaði það mikið á endaatriði myndarinnar (lokabardaganum svokallaða).

Quentin sagði að lokum að ef allt gengi vel að þá myndum við sjá hann aftur á Cannes árið 2009, og þá kæmi hann með fullgerða Inglorious Bastards.

Inglorious Bastards fjallar um hóp af mönnum í seinni heimstyrjöldinni sem að fá tækifæri til þess að sleppa við aftöku með því að fara inná nasistasvæði í sjálfsmorðsleiðangur.
Eitthvað skynja ég að miklar samræður eigi sér stað á leiðinni…

Þá er bara að sjá hvað skeður…