Brjóta lög varðandi aldurstakmörk

Árið 2006 var ákveðið að leggja Kvikmyndaskoðun Íslands niður og setja þess í stað lög varðandi aldurstakmörk á kvikmyndum á Íslandi. Þar með var ábyrgðin færð frá Kvikmyndaskoðun Íslands og yfir á þá sem selja, leigja, dreifa og sýna myndefni hér á landi.

Þó svo að tvö ár séu liðin frá þessari lagasetningu hafa þessir aðilar enn ekki uppfyllt þær kröfur sem samið var um. Smáís, samtök myndréttindahafa er einn af stærri aðilunum á markaðnum og styðst fyrirtækið við hollenskt skoðunarkerfi, en Guðjón Bjarnason, sálfræðingur á Barnaverndarstofu er ansi hræddur um að aðrir aðilar fari ekki eftir lögum.

Guðjón segir að ósamræmi gæti í merkingum sem eru prentaðar á mynddiska erlendis og seldir í íslenskum verslunum. Það sem alvarlegra er, er að enn hefur ekki verið settur upp gagnagrunnur þar sem foreldrar geti sótt upplýsingar um skaðlegt innihald myndefnis, en þetta er eitt af því sem nýsett lög kveða um.

Snæbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri Smáís, segir að þeir vinni nú hörðum höndum að því að koma upp þessum gagnagrunni, en sú vinna hafi tafist vegna tæknilegra örðugleika en loksins sjái þó fyrir endann á því. Þegar gagnagrunnurinn er kominn upp hyggur Smáís að selja öðrum aðgang bæði að hollenska skoðunarkerfinu og gagnagrunninum.

Það sem vantar einnig er fyrst og fremst skýring á aldurstakmörkum, þ.e. af hverju umtöluð kvikmynd er bönnuð innan 10, 12, 14 eða 16 (eða hvað sem það er). Sú hefð þekkist erlendis en ekki hér á Íslandi.

Brot á lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum varða sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Heimilt er að gera upptæka kvikmynd eða tölvuleik ef sýning, sala eða dreifing brýtur í bága við ákvæði laganna.