Framleiðslufyrirtækið Halcyon – sem stendur á bakvið nýjustu Terminator myndina – staðfesti nýlega í viðtali við Variety að ákveðið væri að framleiða PG-13 bíómynd fyrir Warner Bros.
Warner hefur semsagt ákveðið að næsta ævintýrið í Tortímanda-heiminum ætti að innihalda vægara ofbeldi og minna af blótsyrðum og fleira þess háttar. Þeir segja vissulega að ástæðan sé sú að „fleiri geti notið myndarinnar,“ en við vitum eiginlega öll að þetta er gert svo að fleiri unglingar geti borgað sig inn á myndina, sem að e.t.v. tvöfaldar gróðann.
Það muna eflaust flestir eftir því að sama var gert við nýjustu Die Hard myndina nú í fyrra, og fór það í taugarnar á gömlum aðdáendum að æskuhetjan sín gæti ekki sést vera alblóðugur, reykjandi og rífandi kjaft.
Halcyon segja að það komi ekki til greina að Terminator Salvation verði R-mynd (þ.e. bönnuð innan 17 ára í USA).
Þeir bættu síðan við að þeir vildu hafa þetta meira í líkingu við Transformers, þar sem að ofbeldið væri meira ákaft heldur en blóðugt. En svona upp á gamanið, þá er ætlað að framleiða slatta af leikföngum fyrir þessa Terminator mynd, og kannski það segi eitthvað um þetta.
Fyrir okkur „gömlu“ kynslóðina sem að kjósa að horfa á „hardcore“ Terminator bíómynd, þá verðum við væntanlega bara að halda okkur við hinar myndirnar (en aðeins 1 og 2, í mínu tilfelli a.m.k).
Terminator Salvation er annars nýbyrjuð tökum og fara Christian Bale og Anton Yelchin með helstu hlutverk.

