Disney að yfirgefa Miyazaki?

Músaveldið Disney er að yfirgefa japanska snillinginn og leikstjórann Hayao Miyazaki. Miyazaki, sem er leikstjóri hinnar snilldarlegu Princess Mononoke ásamt fleiri frábærum japönskum teiknimyndum, á samning við Disney sem í felst að Disney er með dreifingar- og talsetningarrétt á myndum hans innan Bandaríkjanna. Eftir að Disney mistókst að gera Princess Mononoke að jafnmiklum smelli innan Bandaríkjanna og hún var í Japan ( þar sem hún er næst vinsælasta mynd allra tíma á eftir Titanic), vill Disney ekki leggja út í að talsetja og markaðssetja nýjustu mynd Miyazakis, Spirited Away. Spirited Away er nú að sigla hraðbyri í áttina að því að verða vinsælasta mynd allra tíma í Japan, og er reyndar eina myndin í ár sem ekki er bandarísk til þess að taka inn meira en 100 milljónir dollara. Einnig á Disney réttinn á nokkrum af eldri myndum meistarans sem þeir eru ekkert að gera við, og ætla sér ekki að setja hvorki á sölumyndbönd, DVD, í bíó eða neitt annað. Því er ekki annað hægt að segja en að Disney sé gjörsamlega að bregðast í þessu máli og er þetta lýsandi dæmi um þá stöðnun sem hefur átt sér stað innan fyrirtækisins.