Þessar „stórmerkilegu staðreyndir eða þannig“ birtust fyrst í febrúarhefti Mynda mánaðarins:
Það tók Garret Hedlund ekki nema mánuð að landa sínu fyrsta stóra kvikmyndahlutverki eftir að han kom til Hollywood til að láta reyna á möguleika sína. Hlutverkið var í myndinni Troy þar sem hann lék Patroclus.
Uppáhaldsmynd Rooney Mara er A Woman Under the Influence frá árinu 1974 og uppáhaldsleikkonan er Gena Rowlands sem lék þar aðalhlutverkið.
Hugh Jackman fékk hlutverk Wolverines í fyrstu X-Men-myndinni vegna þess að Dougray Scott hætti við það.
Ástralska leikkonan Abby Cornish hlaut titilinn „kynþokkafyllsta grænmetisætan“
árið 2008.
Mæðgurnar Diane Ladd og Laura Dern eru einu mæðgurnar sem tilnefndar hafa verið til Óskarsverðlauna fyrir leik í sömu myndinni. Það var fyrir myndina Rambling Rose árið 1992.
Anthony Hopkins er einn af fáum leikurum sem hafa leikið tvo mismunandi forseta Bandaríkjanna en sá eini sem hlotið hefur Óskarsverðlaunatilnefningu fyrir bæði hlutverkin.
Colin Farrell sótti um að vera valinn í strákasveitina Boyzone en var hafnað.
Leikstjórinn Nancy Meyers stofnaði og rak ostakökuframleiðslu frá 21 árs aldri eða alveg þangað til fyrsta myndin sem hún skrifaði, Private Benjamin, sló í gegn árið 1980 þegar hún var þrítug.
Breski leikarinn Joss Ackland sem lék í meira en 100 bíómyndum á ferli sínum er fæddur 29. febrúar árið 1928 og mun því halda upp á 88 ára afmæli sitt á réttum degi, hlaupársdeginum, í ár.
Jeff Daniels er ágætur gítarleikari, söngvari og laga- og textasmiður og hefur mest gaman af grínlögum. Á You Tube er að finna nokkur lög með honum, þ. á m. vinsælasta lag hans, If William Shatner Can I Can Too.
Tom Hiddleston er mikill málamaður og er fyrir utan enskuna góður í frönsku, spænsku, grísku, þýsku og latínu. Þess má geta að hann, Eddie Redmayne og William Bretaprins
voru bekkjarfélagar í Eton-framhaldsskólanum.
Tom Selleck er heiðursdoktor við Pepperdine-háskólann á Malibúströnd.