Iron Man Nexus-forsýning

Nexus mun halda sýningu á Iron Man 29 apríl. Við hjá Kvikmyndir.is erum mjög spenntir fyrir henni og hvetjum alla til að skella sér, enda alltaf sérstök stemmning að fara á Nexus-sýningar með alvöru áhorfendum. Meðfylgjandi er bréfið sem þeir sendu á póstlistann. Ef þið eru ekki nú þegar á þeim lista, þá ættuð þið að skrá ykkur.

NEXUSFORSÝNING
MIÐNÆTURSÝNING
IRON MAN
ÞRIÐJUDAGINN 29. APRÍL KL. 24.01
(ÞRIÐJUDAGSKVÖLD, M.Ö.O. AÐFARARNÓTT MIÐVIKUDAGS)
KRINGLUBÍÓ SALUR 2
ENGINN TEXTI, EKKERT HLÉ, NÚMERUÐ SÆTI AÐ EIGIN VALI
MIÐAVERÐ 1.600 KR.
IRON MAN FRUMSÝND Á ÍSLANDI 30. APRÍL, Í BANDARÍKJUNUM 1. MAÍ.
 
Iron Man er fyrsta myndin sem Marvel myndasögufyrirtækið framleiðir og fjármagnar sjálft. Margir bíða spenntir eftir að sjá hvernig þeim tekst að fara með eigin persónur, eftir að hafa horft upp á aðra gera myndir um Marvel hetjur með misjöfnum árangri. Einnig verður mjög spennandi að sjá hvort áætlanir Marvel um að gera kvikmyndaheim, Marvel Universe, sem tengir saman myndirnar sem þeir gera, muni takast. Umfjöllun um Iron Man á netinu lofar góðu, en vegna aukinna varúðarrástafana gegn sjóræningjastarfssemi þá hafa Nexusmenn og -konur ekki fengið að sjá myndina og fá það ekki fyrr en deginum áður. Einnig er þetta fyrsta Nexusforsýning sem er einungis sýnd deginum fyrir frumsýningu á Íslandi en yfirleitt eru Nexusforsýningar amk viku fyrir frumsýningu. Þetta skýrist að mestu af því að Iron Man er frumsýnd hér deginum á undan Bandaríkjunum og svigrúm til forsýninga afar lítið. Þessi sýning er samt með þeim fyrstu í heiminum fyrir almenna áhorfendur.

Sýningin verður að vanda, hlé- og textalaus og selt í númeruð sæti að eigin vali.
Miðar eru eingöngu seldir í Nexus.